Hópur Íslendinga hefur fundið glufur til að koma sér undan réttmætum skatti og geymir eignir í felum, bæði í eignarhaldsfélögum innanlands og erlendis í skattaskjólum.
Þetta segir Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Aðspurður um umfangið á þessum skattaundanskotum segir hann mat á því liggja fyrir. „Það er til opinbert mat á þessu, bæði innlent og erlent og þau lenda yfirleitt þannig að umfang skattaundanskota geti verið öðru hvoru megin við 100 milljarða á ári. Sem eru náttúrulega gríðarlegar upphæðir og þú þarf ekki að ná mjög miklum árangri í að draga úr því til þess að það séu alvöru upphæðir. Sem er þá hægt að skila til almennings í lækkun skatta.“
Þar ræðir Stefán meðal annars þær breytingartillögur á skattkerfinu sem hann og Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, unnu fyrir Eflingu og kynntar voru í síðustu viku, umfang skattaundanskota, hert skattaeftirlit og átök milli pólitískra hugmyndafræða innan ríkisstjórnar Íslands. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Stefán segir að fyrir bankahrun hafi þau rök verið gildandi að hérlendis ætti að vera mjög lágir skattar á fjármagn, til þess að aftra því að eignarfólkið og fjárfestarnir færu með fjármagnið úr landi. „Hver var niðurstaðan af því? Hún var sú að þessir aðilar fluttu meira fé úr landi í erlend skattaskjól heldur en tíðkaðist í nágrannalöndunum. Það var sagan úr Panamaskjölunum.“
Samt hafi þeir aðilar sem þetta stunduðu verið að borga tíu prósent fjármagnstekjuskatt hérlendis, sem var ekkert mikið lægri en í skattaskjólunum. „Það dregur líka athyglina að því af hverju menn séu að nota skattaskjól. Kannski er aðalástæðan sú að menn eru að gera það til að fela eignir. Koma sér undan ábyrgðum frekar en að þeir séu að komast í lága álagningu. Allavega dugði það ekki til að aftra þessu flæði úr landi.“
Stefán segir að Indriði H. Þorláksson hafi bent á að flækjustigið sem sé almenningi mest í óhag tengist meðferð á eignum, fjármagni og flæði milli landa. „Allar þessar glufur sem hafa verið boraðar í okkar kerfi og eru fyrst og fremst í þágu þeirra tekjuhæstu og eignamestu.“