Sú uppsveifla sem byrjaði sumarið 2010 hefur fært þjóðinni betri lífskjör en nokkru sinni áður. Verg landsframleiðsla á mann hefur frá árinu 2016 verið hærri en hún náði árið 2007 fyrir fjármálaáfallið, en nú er tekið að kólna.
Þetta er meðal þess sem Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, fjallar um í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í dag.
Í ítarlegri grein, sem ber yfirskriftina Kólnun og kjarasamningar, segir hann komin séu fram skýr merki um að tekið sé að kólna í hagkerfinu. „Á þessu ári er búist við 2,4% fækkun ferðamanna bæði vegna minna sætaframboðs og vísbendinga um minni eftirspurn erlendis eftir ferðum til Íslands. Þannig er spáð samdrætti í útfluttri eftirspurn í fyrsta sinn frá því árið 2008. Minni útflutningseftirspurn mun lækka hagvöxt á árinu en Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur minnki úr 4,3% árið 2018 í 1,8% árið 2019. Vísbendingar eru um enn meiri fækkun ferðamanan en þeim fækkaði um 5,8% í janúar í samanburði við janúar á síðasta ári skv. nýjum tölum Isavia. Minni hagvöxtur hér á landi hefur áhrif á vinnumarkað. Skráð atvinnuleysi fer vaxandi. Um þriðjungur fyrirtækja vilja fækka starfsfólki meira og meira en helmingi færri fyrirtæki telja sig búa við skort á starfsfólki en árið 2017,“ segir meðal annars í greininni.
Gylfi varar við því að hækka laun of skarpt í ljósi þeirra stöðu sem uppi er um þessar mundir. „Í ljósi þess að mikill kostnaður innlendra fyrirtækja og hátt innlent verðlag er að valda umsnúningi í útflutningsgreinum og minni hagvexti á næstu árum má leiða líkum að því að launahækkanir myndu leiða til annars hvors: samdráttar og minni atvinnu, eða hærra verðlags og lægra gengis, að öðru óbreyttu. Það sem gæti breyst og réttlætt slíkar launahækkanir væri mikill bati í viðskiptakjörum, stóraukin framleiðni eða aukinn áhugi á íslenskum útflutningi óháð verði hans. En fátt bendir til þess að þetta muni gerast,“ segir Gylfi.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.