Torg ehf., útgefandi Fréttablaðsins, leggur til, í umsögn sinni um frumvarp um ívilnanir fyrir einkarekna fjölmiðla, að skilyrði til endurgreiðslu kostnaðar verði breytt þannig að ritstjórnarefni skuli að lágmarki vera 30 prósent í stað 40 prósent hjá miðlinum. „Ástæða þess er sú að við lauslega talningu á þessu hlutfalli í Fréttablaðinu er ljóst að blaðið er á mörkum þess að uppfylla skilyrðið. Ef slík lög væru sett og stærsti prentmiðill landsins gæti ekki fengið styrk vegna þess að hann uppfyllti ekki skilyrðin er ljóst að lögin væru að engu leyti að ná tilgangi sínum,“ segir í umsögn Torgs, sem birt hefur veri í samráðsgáttinni.
Þá vill Torg gera miklar breytingar á starfsemi RÚV, og flytja milljarð frá RÚV til Torgs, Árvakurs og Sýnar, þriggja stærstu fyrirtækjanna sem reka ritstjórnir, og minni miðla.
Tillögur Torgs eru á þá leið, að Torg - ásamt Árvakri og Sýn - eigi að fá 600 milljónir frá ríkinu á meðan minni miðlar fái minna, samtals 400 milljónir fyrir þá alla.
Þá vill Torg að þakið á endurgreiðslunum, sem er miðað við 50 milljónir í frumvarpi Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, verði hækkað, svo að frumvarpið geti náð tilgangi sínum, og að þannig geti farið meiri fjármunir til Torgs, Árvakurs og Sýnar.
Í umsögn Torgs, þar sem tillögur eru gerðar að breytingum, segir meðal annars:
„Tekinn verði einn milljarður af nefskatti RÚV og honum deilt út til einkarekinna miðla.
Miðað verði við að þær þrjár fréttastofur, sem sinna almannaþjónustu hér á landi, þ.e.
fréttastofur Árvakurs, Sýnar og Torgs, fái u.þ.b. 200 milljónir hver á ári. Samtals
fjögurhundruð milljónum verði veitt til starfsemi annarra miðla, sem er þá hægt að
hlúa að og styrkja og auka fjölbreytni, þannig að um muni. Miðað við það frumvarp
sem liggur fyrir er ljóst að ekkert svigrúm er til þess. Með þessu eru útgjöld ríkisins ekki
aukin og RÚV gert að sýna meira aðhald í rekstri en verið hefur og þar með auka súrefni
á markaðnum til einkarekinna miðla. Þessi fjárhæð er ekki nema tæplega 2/3 þeirrar
fjárhæðarsem bein framlög til RÚV hafa aukist um síðustu fimm ár. Hér er því verulegt
svigrúm að flytja fjármuni til í kerfinu, án þess að auka á sama tíma útgjöld ríkisins,“ segir í umsögninni.
Þá leggur Torg einnig til að auglýsingasala RÚV verði takmörkuð við 1.000 milljónir á ári, í stað 2.300 milljónum, eins og nú er, að því er segir í umsögn Torgs.
„RÚV selji einungis auglýsingar fyrir kr. 1.000 milljónir á ári, í stað kr. 2.300 milljóna eins og staðan er í dag. RÚV verði óheimilt að selja kostanir. Auglýsingadeild RÚV verði lögð niður og einhverju birtingarhúsanna falið að sjá um söluna að undangengnu útboði. Að mati Torgs er kostnaður við rekstur auglýsingadeildar RÚV u.þ.b. 300 til 400 milljónir króna á ári, sem er sú fjárhæð sem myndi sparast í rekstri RÚV við þessa breytingu,“ segir í umsögn Torgs.
Fréttablaðið og Sýn hafa átt í víðtæku samstarfi um birtingu á efni Fréttablaðsins, þar sem fréttir hafa birst á bæði Vísi.is og frettabladid.is, á grundvelli samnings sem rekja má til kaupa Sýnar á miðlum sem áður tilheyrðu 365 miðlum.
Upphaflega var samningurinn til 44 mánuða en hann var styttur vegna krafna frá Samkeppniseftirlitinu.
Alls hafa 22 umsagnir við frumvarp ráðherra birst inn á samráðsgáttinni, en frestur til að skila umsögnum rann út í dag.