Virði þeirra átján félaga sem skráð eru á aðallista Nasdaq kauphallar Íslands um þessar mundir er nú 955,3 milljarðar króna en bókfært eigið fé, miðað við nýjustu upplýsingar, er 659,7 milljarðar króna. Þetta þýðir að verðmiðinn á bókfærðu eigin fé (mismunur eigna og skulda) íslenskra fyrirtækja, samanlagt, er 1,4 sinnum eigið féð þessi misserin.
Algengur mælikvarði á markaðsvirði fyrirtækja er að meta markaðsvirði þeirra út frá eiginfjárstöðu þeirra. Þessi verðmiði, 1,4, telst frekar hófsamur í alþjóðlegum samanburði, en þó þarf að taka tillit til þess fyrirvara, að þetta er einungis einn mælikvarði af mörgum sem hægt er að nota til að leggja mat á virði fyrirtækja.
Þegar kemur að íslenska markaðnum á almenningur mikið undir, enda eiga íslenskir lífeyrissjóðir stóran hlutaf af hlutafé skráðra félaga, eða á bilinu 40 til 50 prósent. Það er upphæð sem nemur 381,9 til 477,4 milljörðum króna, miðað við markaðsvirðið um þessar mundir.
Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 4.230 milljörðum króna í lok desember og þar af voru íslenskar eignir, einkum í verðbréfum, 3.155 milljörðum króna. Samtals voru innlend útlán og markaðsverðbréf - þar á meðal skráð hlutabréf - 2.885 milljarðar króna.
Hvað sem öðru líður, þá eru töluverðir hagsmunir undir fyrir almenning í landinu, þegar kemur að hinum skráða markaði þar sem lífeyrissparnaður landsmanna er að nokkuð stórum hluta í þessum eignum, og þær mynda stofninn, ásamt öðrum eignum, að baki útgreiðslum á lífeyri landsmanna.
Ódýrasta félagið á íslenska markaðnum, sé horft til fyrrnefnds mælikvarða, er Icelandair en markaðsvirði þess nemur 0,72 sinnum eigin fé félagsins. Markaðsvirði þess er um 41 milljarður þessi misserin, en bókfært eigið fé þess er 56,5 milljarðar. Þar á eftir kemur fasteignafélagið Heimavellir, en markaðsvirði þess félag nemur 0,74 sinnum eigið fé. Það er að eigið fé félagsins er 18,8 milljarðar króna en markaðsvirðið 13,9 milljarðar.
Arion banki kemur svo þar á eftir með tæplega 0,75 sinnum eigið féð, en það er 200,9 milljarðar um þessar mundir og markaðsvirðið 149,9 milljarðar.
Langsamlega verðmætasta félagið á markaðnum er Marel en virði þess er nú 313,6 milljarðar króna. Það er upphæð sem nemur 5,4 sinnum bókfært eigið fé félagsins sem er 57,7 milljarðar króna.
Mismunandi er hvernig þessi aðferð við að verðmeta félög hentar eftir því í hvaða tegund rekstrar félögin eru. Sé til dæmis horft til tryggingarfélaganna þriggja á markaði, Sjóvá, TM og VÍS, þá eru þau öll með líkan mælikvarða. Sjóvar er með verðmiða upp á 1,5 sinnum eigið fé félagsins en TM og VÍS á bilinu 1,4 til 1,45 sinnum eigið féð.
Félög í smásölu er að meðaltali með verðmiða á þennan mælikvarða sem er um 1,8 sinnum eigið féð. Verðmiðinn á Högum, stærsta smásölufyrirtækis landsins, er 2,2 sinnum eigið féð um þessar mundir, en markaðsvirðið er 52,7 milljarðar á meðan eigið féð er 23,7 milljarðar.
Festi er með verðmiða upp á 1,46 sinnum eigið féð. Markaðsvirðið er 37,5 milljarðar en eigið féð 25,6 milljarðar. Skeljungur er síðan með verðmiða upp á 1,75 sinnum eigið féð. Markaðsvirðið er 15,6 milljarðar en eigið féð 8,9 milljarðar.
Upplýsingar sem miðað er við, þegar kemur að eiginfjárstöðu, eru þær nýjustu sem hafa verið birtar, og miðað stöðuna eins og hún var í lok árs 2018 eða í lok þriðja ársfjórðungs 2018.
Á undanförnum fimm árum, sem blaðamaður hefur skrásett þessar upplýsingar á sama tíma á hverju ári, hefur markaðsvirði skráðra félaga á aðallista Nasdaq kauphallarinnar, verið á bilinu 1,3 til 1,6 sinnum eigið fé þeirra.