Það virðist fyrirliggjandi að deilur á vinnumarkaði munu ekki leysast án umtalsverðrar aðkomu stjórnvalda. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í Morgunblaðinu í dag að valkostir stjórnvalda séu skýrir: annaðhvort verði þau „með vinnumarkaðinn í fanginu út kjörtímabilið eða fá vinnufrið og byggja upp betra, réttlátara og stöðugra samfélag.“
Stærstu stéttarfélög landsins krefjast kerfisbreytinga sem snúa að breyttu skattkerfi, aðgerða á húsnæðismarkaði og aðgerðum sem snúa að verðtryggingu. Ragnar segir að hann skynji vilja stjórnvalda til að koma í gegn ákveðnum kerfisbreytingu, sérstaklega í húsnæðismálum og varðandi verðtrygginguna. „Mitt mat á stöðunni er að þetta sé leysanlegt og það er til mikils að vinna fyrir alla aðila.“ Ljóst sé að samningar náist ekki án aðkomu stjórnvalda, að hans mati.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við sama blað að stjórnvöld séu að undirbúa ýmsar tillögur sem greitt gætu fyrir gerð kjarasamninga en að aðkoma stjórnvalda hangi á því að það sjái til lands í kjaraviðræðum.
Segja að samstaða sé að minnka
Í Fréttablaðinu er greint frá því að samskonar tilboð og Samtök atvinnulífsins gerðu ofangreindum fjórum félögum hafi verið rætt við Starfsgreinasambandið. Það hafi ekki litið á tilboðið sem alvöru tilboð og því hafi ekki verið gert neitt gagntilboð.
Blaðið segist hafa heimildir fyrir því að það hafi komið á óvart hversu vel félögin fjögur, sem hafa hingað til málað sig róttækustu litunum í umræðunni, hafi tekið í tilboð Samtaka atvinnulífsins og spyrðu hvers konar róttækni væri fólgin í því að ætla að sækja allar kjarabætur til ríkisins. Auk þess er haft eftir þeim heimildarmönnum að brestir séu komnir í samstöðu félaganna fjögurra. VR og Verkalýðsfélag Akraness séu farin að sýna minnkandi átakaáhuga á meðan að fulltrúar Eflingar, sem Verkalýðsfélag Grindavíkur er talið fylgja að málum, séu „tilbúnir í harðari aðgerðir“.
Mikill stuðningur við átök innan Eflingar
Átakahugur Eflingar nýtur stuðnings innan vébanda félagsins. Í nýrri könnun sem Gallup framkvæmdi meðal félagsmanna Eflingar kom í ljós afdráttarlaus stuðningur við kröfugerð félagsins í kjarasamningum. Tæplega 80 prósent félagsmanna töldu hana sanngjarna og sama hlutfall segist hlynnt því að fara verkfall til að knýja á um launakröfur verkalýðsfélaganna.
Fjöldi erlendra ríkisborgara sem hér starfar hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Þeir voru 44.675 í byrjun þessa mánaðar. Þar af voru Pólverjar, sem eru langstærsta þjóðarbrot sem búsett er hérlendis, alls 19.399. Það þýðir að það búa fleiri Pólverjar á Íslandi en búa til að mynda í heild sinni á Akureyri.
Stjórn Eflingar og samninganefnd hafa einnig samþykkt ályktun um skattastefnu, þar sem fyrsta skrefið fælist í þeim skattatillögum sem Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson hafa mótað í nýútgefinni skattaskýrslu sinni.
Þar er meðal annars lagt til að tekjuskattar á 90 prósent almennings myndu lækka, en að tekjuhæstu fimm prósentin myndu borga meira. Stjórnin og samninganefndin krefjast þess að aðgerðirnar sem skýrslan leggur til verði innleiddar „strax á næstu fjárlögum, og að skattbyrði tekjulægstu hópa verði með öllu aflétt eigi síðar en árið 2021.“
Fólk orðið óþolinmótt
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, fjallar um stöðu mála í kjaraviðræðunum í föstudagspistli sínum í gær. Þar segir hún að vikan hafi einkennst af viðræðum við stjórnvöld og óteljandi öðru samtölum, jafnt formlegum sem óformlegum, um hvernig hægt yrði að ná sem bestum kjarabótum í viðræðunum sem nú standa yfir. „Næsta vika ber vonandi í skauti sér skýrari mynd af stöðunni og hvers er að vænta bæði frá stjórnvöldum og atvinnurekendum. Fólk er auðvitað orðið óþolinmótt og það er vel skiljanlegt, ferlið hefur tekið lengri tíma en ætlunin var en vonandi verður útkoman þeim mun betri og heildarmyndin fyllri.“