„Já, ég er sannfærð um það,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, um það hvort hún sé vongóð um að ná frumvarpi sínu um endurgreiðslur til fjölmiðla í gegnum ríkisstjórn. Þetta sagði hún í viðtali í Silfrinu á RÚV í dag.
Töluverð andstaða hefur birst við frumvarpið hjá sumum þingmönnum Sjálfstæðisflokks, meðal annars Óla Birni Kárasyni og Ásmundi Friðrikssyni. Óli Björn skrifaði grein í Morgunblaðið í upphafi mánaðar þar sem sagði m.a.: „Skilvirkasta leiðin til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er lækkun skatta. Styrktar- og millifærslukerfi er versta leiðin.“ Ásmundur skrifaði grein á vefinn Eyjar.net þar sem hann líkti væntanlegum endurgreiðslum til fjölmiðla, sem áætlaðar eru 350 milljónir króna á ári, við búvörusamningum, sem kosta að meðaltali 13,2 milljarða króna á tíu ára gildistíma sínum. Ásmundur sagði í greininni að frumvarpið geri meðal annars „ráð fyrir að skoðunarbræður sem skapa sér vettvang í fjölmiðlun og oft eru nefndir mykjudreifarar verði vel tryggðir og gætu fengið hlutfallslega hæstu framlögin.“
Frumvarp Lilju gerir ráð fyrir því að einkareknir fjölmiðlar, sem uppfylla tiltekin skilyrði, geti fengið 25 prósent ritstjórnarkostnaði sínum upp að 50 milljónum króna hámarki endurgreiddan árlega. Á meðal skilyrða sem þarf að uppfylla eru slík sem snúa að rekstrarsögu, starfsmannafjölda og um hversu stórt hlutfall birts efnis þurfi að vera ritstjórnarefni sem byggist á sjálfstæðri frétta- og heimildaöflun.
Frumvarpið var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda og lauk samráðinu í gær. Alls bárust 23 umsagnir, flestar frá einkareknum fjölmiðlum, með margháttuðum og ólíkum athugasemdum. Stærstu einkareknu miðlar landsins gerðu miklar athugasemdir við veru RÚV á auglýsingamarkaði í sínum umsögnum. Þá vildi Torg ehf., útgefandi Fréttablaðsins, að ívilnunum yrði breytt þannig að skilyrði til endurgreiðslu kostnaðar verði breytt þannig að ritstjórnarefni verði að lágmarki vera 30 prósent í stað 40 prósent hjá miðlinum. „Ástæða þess er sú að við lauslega talningu á þessu hlutfalli í Fréttablaðinu er ljóst að blaðið er á mörkum þess að uppfylla skilyrðið. Ef slík lög væru sett og stærsti prentmiðill landsins gæti ekki fengið styrk vegna þess að hann uppfyllti ekki skilyrðin er ljóst að lögin væru að engu leyti að ná tilgangi sínum.“ Torg lagði einnig til að endurgreiðslu myndu ná helst til ritstjórna sem væru með fleiri en 20 starfsmenn sem myndi þýða að þrír einkareknir aðilar, Torg, Árvakur og Sýn, myndu fá þorra endurgreiðslna.
Lilja sagði í Silfrinu að þetta væri fyrsta skrefið af nokkrum til að rétta við stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi og að það væri í anda þeirra endurgreiðslukerfa sem þegar hefur verið komið á fót varðandi kvikmyndagerð, bókaútgáfu og nýsköpun hérlendis. Þetta væri í fyrsta sinn sem lagt væri fram frumvarp sem viðurkenndi vanda einkarekinna fjölmiðla og staða þeirra væri því í fyrsta sinn komin á dagskrá stjórnmálanna.
Hún sagði að það yrði tekið tillit til athugasemda sem fram hefðu komið. Hvað varðar veru RÚV á auglýsingamarkaði þá lagði hún áherslu á að um væri að ræða fyrsta skref í ferli. Það hafi þegar verið kynntar hugmyndir um að minnka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði en að það verði ekki gripið til aðgerða fyrr en að mjög vel athuguðu máli þannig að tekjurnar sem myndi losna um myndu ekki einungis renna beint út úr landinu til erlendra samfélagsmiðla sem hafa tekið sífellt stærri sneið af íslenskum auglýsingamarkaði.