WOW air hefur óskað eftir fresti fram í miðjan mars til að gera upp ógreidd flugvallargjöld á erlendum flugvöllum.
Vefsíðan Túristi.is greinir frá þessu, og vitnar til bréfs sem félagið hefur sent frá sér um fyrrnefnd atriði.
Eigendur skuldabréfa WOW air veittu félaginu frest fram í lok febrúar til að ljúka samningaviðræðum við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners, en ekkert liggur fyrir um það ennþá hvernig þær viðræður ganga, og hefur WOW air ekki upplýst um ganga mála undanfarnar vikur.
„Í lok þessa mánaðar rennur út fresturinn sem eigendur skuldbréfa í WOW air veittu Indigo Partners og Skúla Mogensen til að ná samkomulagi um kaup bandaríska fjárfestingafélagsins á stórum hlut í íslenska flugfélaginu. Samningaviðræðurnar hafa staðið yfir í rúmar ellefu vikur en ekki fást neinar upplýsingar um gang mála. Hvorki Skúli Mogensen né blaðafulltrúi Indigo Partners svara fyrirspurnum en líkt og Túristi greindi frá þá byggði ný grein bandarísku fréttastofunnar CNBC, um möguleg kaup Indigo á WOW air, á gömlum tilvitnunum í William Franke, stjórnanda WOW air.
Á sama tíma fást ekki svör frá flugvélaleigunni Avolon um hvort WOW air verði heimilt að bakka út úr tólf ára leigusamningi á fjórum nýjum Airbus A330 breiðþotum. Leiguverð á einni slíkri nemur hátt í 100 milljónum kóna og standa tvær af þotunum fjórum nú málaðar og merktar WOW air við verksmiðju Airbus í Toulouse. Upphaflega stóð til að afhenda þoturnar TF-BIG og TF-MOG í lok síðasta árs en því var seinkað fram í febrúar. Að mati aðila sem vel þekkja til þá gæti WOW air þurft að greiða á bilinu 300 til 500 milljónir króna fyrir að losna undan leigusamningi á hverri og einni breiðþotu. Það eru því umtalsverðar upphæðir í húfi og ekki ólíklegt að þessir dýru leigusamningar hafi sett strik í reikninginn í viðræðunum um fjárfestingu Indigo Partners í WOW air,“ segir í umfjöllun Túrista.
Greint var frá því í desember í fyrra, að WOW air væri nú að vinna að því að ná samkomulagi við Indigo Partners um að fjárfesta í sér, og gæti sú fjárfesting verið upp á allt að 75 milljónir dala, eða 9,4 milljarða króna.
WOW air tapaði alls 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins 2018. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dala fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir dala nú, sem er um 2,3 milljarða íslenskra króna.
WOW air sagði upp fjölda fólks í desember, en uppsagnirnar náðu til um 350 starfsmanna. Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, sagði við það tilefni að félagið hefði farið útaf sporinu, og að hann hefði gert dýrkeypt mistök, en uppsagnirnar væru liður í hagræðingu í rekstri til að takast á við breytta stöðu og hverfa aftur til þess skipulags sem hefði reynst félaginu vel í upphafi.