Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir að það sé misskilningur sem birtist í opnu bréfi VR, þar sem orðum er beint að Kviku banka, vegna starfsemi Almenna leigufélagsins, sem er í eigu Gamma.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir Ármann að Kvika sé ekki orðinn eigandi GAMMA og hafi því ekkert með stjórn GAMMA að gera. „Staðan er sú að Samkeppniseftirlitið hefur enn ekki heimilað kaup Kviku á Gamma og við því ekki eigendur félagsins. Við vonumst auðvitað eftir því að SKE samþykki kaupin en það geta liðið vikur eða mánuðir þar til það gerist.Þar til kaupin ganga í gegn höfum við ekkert með stjórn GAMMA að gera og er óheimilt að reyna að hafa einhver áhrif á rekstur félagsins og sjóðastýringu þess,“ segir Ármann.
Eins og greint var frá fyrr í dag, segir í opnu bréfi á vef VR að ef Almenna leigufélagið láti ekki af „grimmdarverkum“ sínum gagnvart leigutökum, þá muni félagið taka 4,2 milljarða króna úr stýringu hjá GAMMA. Fjögurra daga frestur eru gefinn til að bregðast við.
„Stjórn VR sættir sig ekki við þetta. Við kjósum að láta ekki bendla okkur við aðila sem beita slíkum meðulum og höfum tekið þá ákvörðun að veita Kviku banka fjögurra daga frest til þess að láta Almenna leigufélagið hætta þessum grimmdarverkum og koma því þannig fyrir að leiga félagsins hækki ekki umfram verðlag og að leigjendum verði tryggt húsnæðisöryggi. Hafi það ekki verið gert innan fjögra daga mun VR taka allt sitt fé úr eignastýringu hjá Kviku banka sem er um 4,2 milljarðar króna,“ segir í bréfi VR.