„Börn eiga að mínu mati og að mati Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins - og í samræmi i við Barnasáttmála S.Þ.- alltaf rétt á stuðningi og aðstoð í samræmi við stöðu sína sem börn.“
Þetta segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í færslu á Facebook síðu sinni, en hún hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á útlendingalögum. Með frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá aldursgreiningu með líkamsrannsókn og horft fremur til heildstæðs mats.
„Aldursgreiningar á borð við tanngreiningar (eins og gert er hér á Íslandi) beinamyndatökur og jafnvel skoðun kynfæra ( eins og leyfilegt er í Danmörku ! ) hafa verið notaðar til að greina aldur barna til að meta hvort viðkomandi einstaklingur eigi rétt á tiltekinni þjónustu í þeim löndum sem þau leita eftir vernd. Þessar aðferðir hafa verið gagnrýndar um árabil,“ segir Rósa í Facebook færslu sinni.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmiðið sé að breyta framkvæmd aldursgreiningar, og horfa fremur til þess að vernda betur mannréttinda þeirra sem umræðir. „Í undantekningartilvikum megi leggja fyrir útlending að hann gangist undir líkamsrannsókn ef enn leikur vafi á aldri viðkomandi og fyrir liggur að öðrum mögulegum úrræðum hafi verið beitt við hið heildstæða mat,“ segir í greinargerðinni.
Í greinargerðinni segir enn fremur, að líkamsrannsóknir hafi verið gagnrýndar, meðal annars fyrir ónákvæmni, og þá hafi einnig komið tilmæli frá alþjóðastofnunum um að virða alþjóðasamninga og mannréttindi þegar börn eiga í hlut. „Víða hafa aldursgreiningar byggðar á líkamsrannsóknum verið gagnrýndar, bæði vegna siðferðislegra þátta og vísindalegrar ónákvæmni. Þá hafa komið fram tilmæli frá Evrópuráðinu, Evrópuráðsþinginu og ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem megininntak þeirra er að þegar vafi leikur á því hvort umsækjendur sem sækja um alþjóðlega vernd séu börn skuli þeir ávallt metnir sem börn en ekki sem fullorðnir, og að beitt skuli heildstæðu mati til að reyna að komast að aldri þeirra en ekki tanngreiningum sem eru taldar afar óáreiðanleg aðferð til að mæla aldur barna,“ segir í greinagerðinni.
Rósa Björk segist vona að Alþingi samþykki frumvarpið. „Frumvarpi mínu um að heildstætt mat verði frekar notað heldur en aldursgreiningar á borð við tanngreiningar eða annars konar líkamsrannsóknir var dreift í dag. Ég vona að Alþingi muni samþykkja þetta góða þingmál mitt. Börnum sem leita eftir alþjóðlegri vernd til heilla. Og okkur öllum sem fá þau til okkar.“