Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur lækkað breytilega verðtryggða vexti sína úr 2,46 prósent í 2,15 prósent. Hann býður nú upp á lægstu verðtryggðu vexti sem í boði eru á Íslandi.
Fyrir helgi lækkaði Lífeyrissjóður verzlunarmanna sína verðtryggðu íbúðalánavexti niður í 2,3 prósent og voru það lægstu slíkur vextir sem hafa verið í boði.
Báðir sjóðirnir eru þó með hámark á sínum lánum. Frjálsi lánar til að mynda upp að 40 milljónir króna fyrir par og mest fyrir 70 prósent af kaupverði, en þó aldrei hærri upphæð en sem nemur samanlögðu virði brunabótamats og lóðarverðs. Þá lánar Frjálsi lífeyrissjóðurinn einungis sjóðsfélögum og ekki fyrir endurfjármögnun frá öðrum lánveitendum.
Hröð vaxtalækkun hjá lífeyrissjóðunum
Verðtryggðir vextir hafa hríðlækkað á Íslandi á undanförnum þremur og hálfu ári. Breytingin hófst haustið 2015 þegar stærstu lífeyrissjóðir landsins fóru að lána aftur á fullu til sjóðsfélaga sinna til íbúðarkaupa á betri kjörum og að hærra veðhlutfalli. Þá voru lægstu breytilegu vextir sem í boði voru 3,2 prósent. Nú eru þeir, líkt og áður sagði, umtalsvert lægri, eða 2,15 prósent. Það þýðir að vextirnir hafa lækkað um þriðjung frá því að lífeyrissjóðir landsins hófu aftur að lána af krafti til sinna sjóðsfélaga.
Líkt og rakið var ítarlega í fréttaskýringu í Kjarnanum um helgina hafa íslensku viðskiptabankarnir ekki getað haldið í við þá vaxtalækkun sem orðið hefur hjá lífeyrissjóðum landsins. Vextir þeirra eru miklu hærri en þeir sem lífeyrissjóðirnir bjóða upp á. Ein ástæða þess eru sértækir bankaskattar sem þeir greiða en sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki er 0,376 prósent af öllum heildarskuldum umfram 50 milljarða króna.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, sagði í uppgjörstilkynningu þess banka í síðustu viku að ljóst væri að erfitt yrði að ná viðunandi arðsemi „án umtalsverðra hækkana á útlánsvöxtum þegar ríkisvaldið viðheldur ofursköttum á bankakerfið og eftirlitsaðilar bæta við eiginfjárkröfum og öðrum álögum.“
Lán afgreidd á sama stað
Vextir viðskiptabankanna á breytilegum verðtryggðum lánum upp að 70 prósent veðhlutfalli eru 3,55 til 3,89 prósent. Það þýðir að dýrustu verðtryggðu vextirnir þeirra, sem eru hjá Arion banka, eru ekki langt frá því að vera tvöfalt hærri en ódýrustu vextirnir, sem eru hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum og eru 2,15 prósent.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn er rekinn af Arion banka og er til húsa í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Þá sinna ráðgjafar í útibúum Arion banka í Borgartúni, Bíldshöfða og Smáratúni afgreiðslu lána fyrir Frjálsa lífeyrissjóðinn.