Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að verja þrjátíu milljónum króna til aðstoðar við flóttafólk frá Venesúela með stuðningi við starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Frá þessu er greint í tilkynningu, en Guðlaugur Þór ræddi fyrr í dag við Juan Guaidó, forseta þjóðþings Venesúela, og greindi honum frá stuðningi ríkisstjórnar Íslands við hann sem forseta landsins til bráðabirgða. Nicolás Maduro er forseti Venesúela, en mikill þrýstingur hefur verið á hann að stíga til hliðar, ekki síst frá Bandaríkjastjórn sem hefur beitt viðskiptaþvingunum gagnvart Venesúela og hefur formlega lýst yfir stuðningi við Guaidó.
Guðlaugur Þór greindi upphaflega fyrst frá stuðningi Íslands við Guaidó á Twitter síðu sinni, 4. febrúar síðastliðinn.
Iceland supports @jguaido as the Interim President of Venezuela. Free and fair elections should now be called and the will of the people respected.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) February 4, 2019
Þá greindi hann einnig frá framlagi Íslands til mannúðarstoðar, en efnahagur Suður-Ameríku landsins er í molum. Íbúar í Venesúela eru 32 milljónir, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að landsframleiðsla landsins muni halda áfram að falla niður á þessu ári, en samdrátturinn nemur næstum 50 prósentum miðað við árið 2013.
Framlagið til aðstoðar við flóttafólkið kemur til viðbótar við tuttugu milljóna króna framlag sem var ráðstafað til hjálpar flóttafólki frá Venesúela í samstarfi við SOS-Barnaþorp í lok janúar, segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.