Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að Kvika banki hafi nú frest til að rifta kaupum sínum á GAMMA, sem rekur Almenna leigufélagið.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ragnari Þór á Facebook síðu hans.
„VR er frjálst að færa sína sjóði og kostar það félagið ekki neitt. Ef rétt reynist að Kvika banki hefur ekkert með ákvarðanir Gamma/Almenna að gera, sem ég reyndar efast stórlega um, hefur bankinn sama frest til að rifta fyrirhuguðum kaupum á fyrirtæki sem svífst einskis þegar kemur að siðlausum gróðasjónarmiðum gagnvart almenningi. Stjórn VR stendur fast á sínu. Við höfum nú þegar gert ráðstafanir um það hvert fjármunir félagsins verða fluttir, komi til þess, og mun það ekki hafa nokkur áhrif á ávöxtun fjármuna félagsins sé tillit tekið til árangurs bankans síðustu ár,“ segir Ragnar Þór.
Í opnu bréf á vef VR, sem birt var fyrr í dag, er Kviku gefinn kostur á að bregðast við hegðun Almenna leigufélagsins, sem komi fram við leigjendur af „grimmd“. Sjóðir VR í stýringu, 4,2 milljarðar króna, verði færðir út stýringu ef bankinn myndi ekki bregðast við hátterni Almenna leigufélagsins.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, sagði í samtali við Kjarnann að Kvika kæmi ekkert að ákvörðunum GAMMA enda væri bankinn ekki búinn að eignast félagið, og mætti ekki koma að starfsemi félagsins. „Við vonumst auðvitað eftir því að SKE samþykki kaupin en það geta liðið vikur eða mánuðir þar til það gerist.Þar til kaupin ganga í gegn höfum við ekkert með stjórn GAMMA að gera og er óheimilt að reyna að hafa einhver áhrif á rekstur félagsins og sjóðastýringu þess,“ sagði Ármann.