Stjórn eignaumsýslufélagsins Klakka (áður Exista) hefur boðað til hluthafafundar að beiðni „tiltekinna minnihluta hluthafa félagsins“ þar sem á dagskrá eru ýmsar tillögur umræddra hluthafa, þ.m.t. tillaga um að fram fari sérstök rannsókn, líkt og heimilað er í einkahlutafélagalögum (sbr. 1. mgr. 72. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994).
Þetta segir í svari frá Klakka, áður Exista, við fyrirspurn Kjarnans, en í eignasafni félagsins núna er fjármögnunarfélagið Lykill.
Þessir tilteknu minnihluta hluthafar eru, samkvæmt heimildum Kjarnans, Bakkavararbræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, sem áður voru stæstur eigendur Exista og stærstu eigendur Bakkavarar, og Sigurður Valtýsson, sem áður var forstjóri félagsins.
Í svari frá stjórn Klakka segir að það sé mat stjórnar að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði fyrir því að láta fara fram rannsóknina sem kallað er eftir.
í stjórn Klakka eru í dag, samkvæmt vef félagsins, Matthew Frank Hinds, formaður stjórnar, Anthony Thomas Place, Gunnar Þór Þórarinsson, Joy McAdam, og Steinn Logi Björnsson.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans, segir:
„Að mati stjórnar félagsins eru lagaskilyrði ekki uppfyllt fyrir því að láta framkvæma slíka rannsókn, m.a. þar sem tillagan snýr mestmegnis að atriðum sem varða ekki starfsemi félagsins eða atriðum sem þegar hefur verið upplýst um.
Stjórn Klakka bendir á um er að ræða endurteknar umkvartanir sömu aðila sem áður hefur verið svarað, meðal annars á hluthafafundum félagsins. Stjórn Klakka fær því ekki séð að tillögurnar, sem koma frá félögum í eigu fyrrverandi aðaleigenda og stjórnenda Exista, varði mikilvæga hagsmuni Klakka eða hluthafa þess. Tillögur minnihluta hluthafanna munu fá umræðu og formlega afgreiðslu á viðeigandi vettvangi, þ.e. hluthafafundi félagsins.
Tilgangur Klakka sem eignaumsýslufélags er að selja eftirstandandi eignir og slíta svo félaginu. Aðeins tveir starfsmenn starfa hjá félaginu og rekstrarkostnaður þess er mun minni en áður.
Lýstar kröfur í nauðasamningum Exista námu upphaflega tæplega 300 milljörðum króna og aðeins hluti þeirra hefur fengist greiddur. Nær allar eignir félagsins hafa verið seldar, svo sem vátryggingarfélagið VÍS og fjarskiptafyrirtækið Síminn, svo nú er aðeins lítið brot af eignum Exista sem stendur eftir. Þar er fjármögnunarfyrirtækið Lykill stærsta eignin. Félagið fór í söluferli á síðasta ári en tilboðin sem bárust uppfylltu ekki verðmat stjórnar Klakka og því hafa áform um sölu Lykils nú verið sett á hilluna. Þegar allri eignasölu verður endanlega lokið verður starfsemi Klakka hætt í núverandi mynd.“