Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir daginn í dag, þar sem stjórnvöld kynntu útspil sitt í kjaraviðræðum, vera „dag vonbrigða“ sem ekki muni liðka fyrir kjarasamningum.
Þetta kemur fram í færslu Drífu á Facebook síðu hennar.
„Dagur vonbrigða í dag þegar við fengum kynningu á skattatillögum stjórnvalda.
1. Skattalækkun upp allann stigann (enginn að kalla eftir skattalækkun á hæstu tekjuhópana).
2. Sennilega frysting persónuafsláttar í nokkur ár (raunlækkun persónuafsláttar).
3. Ekkert meira inn í barnabóta- og húsnæðiskerfin en komið er (Fjármagn í barnabætur hafa ekki náð raungildi ársins 2010).
4. Enginn hátekjuskattur eða hækkun á auðlindagjöldum og fjármagnstekjuskatti (Tekjuöflun engin). 5. Skattalækkun á þá hópa sem enn ná ekki endum saman dugar varla fyrir einni ferð í Bónus og sú lækkun á að koma einhverntíman á næstu þremur árum.
Niðurstaða: Þetta verður ekki til að liðka fyrir kjarasamningum,“ segir Drífa.
Stjórnvöld sendu frá sér tilkynningu í dag, þar sem farið er yfir það sem kalla má útspil stjórnvalda í kjaraviðræður.
Í tilkynningu stjórnvalda segir að lagt sé upp með að auka jöfnuð og koma til móts við þá sem lægstu tekjurnar hafa. „Breytingarnar eru í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar 2018. Þær munu sérstaklega bæta stöðu kvenna, fólks á aldrinum 18-24 ára, 25-34 ára, öryrkja, eldri borgara, þeim sem ekki eiga húsnæði og þeim sem þiggja húsnæðisstuðning. Bætt verður við nýju neðsta skattþrepi og fjárhæðum til lækkunar skatta beint til lægri millitekju- og lágtekjuhópa samkvæmt fyrirætlunum um breytingar í skattamálum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag. Gert er ráð fyrir að tekjuáhrif skattkerfisbreytinganna nemi um 14,7 milljörðum króna. Hækkun barnabóta 2019 nemur 1,6 ma.kr. og hækkun persónuafsláttar umfram verðlag 1,7 ma.kr. Alls nema því tillögur stjórnvalda í tekjuskatti og barnabótum 18 milljörðum króna,“ segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.