Samkvæmt drögum að frumvarpi Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, verður horfið frá því fyrirkomulagi að mögulegt verði að leita til Alþingis um afgreiðslu á umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt og verði þær þess í stað afgreiddar á stjórnsýslustigi.
Frumvarpið felur í sér breytingar á nokkrum ákvæðum laga um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952 er varða skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Með hliðsjón af breytingum á reglum um fjárhæðir sekta vegna umferðarlagabrota eru lagðar til úrbætur á 6. tölul. 9. gr. laganna til að koma í veg fyrir að reglurnar raski upphaflegum tilgangi ríkisborgaralaga um biðtíma vegna refsinga.
„Til samræmis við ný lög um útlendinga er lögð til lítils háttar breyting á heimild umsækjanda um ríkisborgararétt til dvalar erlendis. Í þeim tilgangi að skýra lögin betur er jafnframt ákvæði um hversu löng dvöl erlendis megi vera án þess að hún skerði dvalartíma hér á landi. Vegna nýrra laga um útlendinga er einnig lögð til breyting á búsetuskilyrði maka íslensks ríkisborgara úr þremur árum í fjögur ár. Að óbreyttum lögum getur maki óskað eftir ótímabundnu dvalarleyfi og ríkisborgararétti á sama tíma, en ekki þykir í samræmi við tilgang ríkisborgaralaga að heimildir þessar myndist samtímis,“ segir í útdrætti úr drögunum.
Í samræmi við það gerir frumvarpið ráð fyrir að Útlendingastofnun geti lagt mat á tiltekin atriði við afgreiðslu umsókna.
Loks er lagt til að tekið verði aftur upp í lögin ákvæði um heimild til að endurveita íslenskan ríkisborgararétt þeim sem misstu íslenska ríkisfangið fyrir 1. júlí 2003, vegna ákvæða í eldri lögum, en ákvæðið hefur tvívegis verið tímabundið í lögunum.