Skuldir skráðra félaga á aðallista kauphallar Íslands nema nú 1.806 milljörðum króna, sem er upphæð sem nemur 2,4 sinnum eigið fé þeirra. Það er skuldsetning sem telst frekar í lægri kantinum, sé horft til skráðra félaga erlendis, en algengt er að hlutfallið sé jafnvel á bilinu 4 til 5 sinnum eigið fé, þegar horft er til meðaltala skráðra félaga í stærri kauphöllum.
Það félag sem er með mestar skuldir á aðallistanum er Arion banki, enda sker hann sig algjörlega frá öðrum fyrirtækjum sem eini skráði bankinn á markaði, þar sem stór hluti af efnahagnum er tengdur skuldbindingum við fólk vegna innlána.
Með tilkomu Arion banka á markaðinn jukust skuldirnar mikið, þegar horft er til þessa mælikvarða, þar sem skuldsetning er metin sem hlutfall af eigin fé. Að sama skapi er ekkert félag á íslenska markaðnum með meira eigið fé, en það var 200,9 milljarðar króna í lok árs í fyrra.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans á dögunum, þá nemur markaðsvirði skráðra íslenskra félaga, miðað við stöðuna eins og hún var um miðjan mánuðinn, um 1,4 sinnum eigið þeirra. Það telst fremur lágt verð í alþjóðlegum samanburði, en á síðustu fimm árum hefur þetta hlutfall sveiflast frá 1,3 til 1,6 sinnum eigið fé.
Blaðamaður hefur safnað gögnum um þennan mælikvarða á rekstur skráðu félaganna fyrir undanfarin fimm ár og uppfært í byrjun árs ár hver, en algengt er að alþjóðlegir fjárfestar meti hlutabréfamarkaði einstakra ríkja meðal annars eftir því hvernig markaðsvirðið er, miðað við eigið fé fyrirtækjanna í heild, og síðan hvernig skuldsetning fyrirtækjanna þróast í hlutfalli við eigið fé.
Misjafnt er hvaða mælikvarðar eru skoðaðir við mat á þróun mála, ekki síst þar sem mismunandi rekstrarviðmið geta verið fyrir fyrirtæki, eftir því í hvaða geirum atvinnulífsins þau starfa.
Langverðmætasta félagið í kauphöllinni er Marel, en markaðsvirði þess er nú komið í 322,2 milljarða króna. Það félag er með næst mestu skuldirnar af félögunum í kauphöllinni, eða rúmlega 135 milljarða króna.
Íslenskur almenningur á mikið undir því að rekstur skráðra félaga gangi vel, en íslenskir lífeyrissjóðir eiga á bilinu 40 til 50 prósent af hlutfé félaganna í íslensku kauphöllinni.
Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 4.230 milljörðum króna í lok desember og þar af námu íslenskar eignir, einkum í verðbréfum, 3.155 milljörðum króna. Samtals voru innlend útlán og markaðsverðbréf - þar á meðal skráð hlutabréf - 2.885 milljarðar króna.