Ríkislögmaður, fyrir hönd Tollstjóra, hefur fallist á að rifta 143 milljóna króna greiðslu í ríkissjóð, úr rekstri fjölmiðlafyrirtækisins Pressunnar ehf., sem nú er í slitameðferð eftir gjaldþrot.
Kristján B. Thorlacius hrl., bússtjóri Pressunnar, hefur höfðað fjögur riftunarmál upp á samtals 393 milljónir króna. Þar af er bróðurparturinn, upp á 278 milljónir, vegna greiðslna til ríkissjóðs, sem á því mikilla hagsmuna að gæta fyrir hönd skattgreiðenda vegna falls fjölmiðlafyrirtækisins.
Eins og áður sagði, var fallist á riftun á greiðslum upp á 143 milljónir en deilt er um afganginn fyrir dómstólum, samtals upp 135 milljónir króna.
Þá eru í gangi þrjú riftunarmál í viðbót.
Eitt þeirra snýst um kröfu vegna endurgreiðslu á kaupverði sem greitt hafði verið fyrir hönd Pressunnar inn á kaupsamning um hlutafé í fjölmiðlafyrirtækinu Birtingi. Kaupunum var rift en greiðslu upp á um 30 miljónir var ekki skilað til Pressunnar ehf. þegar kaupin voru látin ganga til baka.
Annað snýr að riftun á yfirtekinni og meintri skuld Pressunnar við Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi forsvarsmann og helsta eiganda Pressunnar, upp á 80 miljónir sem dregið var frá uppgjöri söluverðs eigna Pressunnar haustið 2017.
Þá er einnig í gangi riftunarmál vegna greiðslu til félagsins NRS Media upp á um 5 milljónir króna, en greiðslan fór fram um mánaðarmótin október/nóvemeber 2017, skömmu áður en félagið fór í þrot.
Málin eru höfðuð þar sem það er mat bússtjóra að jafnræðis meðal kröfuhafa hafi ekki verið gætt við ráðstöfun á fjármunum félagsins, í fyrrnefndum málum, enda var fjárhagur félagsins fyrir löngu kominn í uppnám áður en það fór formlega í þrot.
Samtals var kröfum upp á 315 milljónir króna lýst í þrotabú Pressunnar og um 235 milljónum króna í bú DV ehf., sem var í eigu Pressunnar.
Kröfulýsingafrestur í þrotabú DV rann út í maí í fyrra. Meðal krafna voru meðal annars yfir 50 milljóna forgangskröfur vegna vangoldinna launa og lífeyrisgreiðslna.
Almennar kröfur voru upp á 183,5 milljónir króna og var stærsta krafan frá Tollstjóra vegna opinberra gjalda, að því er fram kom í frétt RÚV í maí síðastliðnum.
Rétt áður en Pressan varð gjaldþrota, keypti félagið Frjáls fjölmiðlun ehf., sem Sigurður G. Guðjónsson hrl. á, stóran hluta af eignum Pressunnar.
Meðal annars voru það DV, Pressan, Eyjan, Bleikt og 433.is. Síðan þá hafa flestir fjölmiðlarnir farið undir vef DV.is.
Frjáls fjölmiðlun ehf., sem rekur DV og fleiri fjölmiðla, tapaði 43,6 milljónum króna á þeim tæpu fjórum mánuðum sem félagið var starfandi á árinu 2017. Tekjur þess voru 81,4 milljónir króna frá því að félagið hóf starfsemi í september 2017 og fram að áramótum.
Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er félagið Dalsdalur ehf. Eini skráði eigandi þess er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem er einnig skráður fyrirsvarsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar hjá Fjölmiðlanefnd.
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Heildartap fyrir skatta var 54,5 milljónir króna en skattinneign skilaði félaginu 10,9 milljón króna í tekjur sem töldu á móti.
Alls eru eignir Frjálsrar fjölmiðlunar metnar á 529 milljónir króna. Þar af eru óefnislegar eignir bókfærðar á 470 milljónir króna.
Skuldir félagsins, sem er ein stærsta einkarekna fjölmiðlasamsteypa landsins, voru 542 milljónir króna um síðustu áramót og var stofnað til þeirra á síðasta ári. Þar munar mest um 425 milljón króna skuld við eigandann, Dalsdal ehf. Sú skuld, sem virðist vaxtalaus, á að greiðast til baka á árunum 2018 til 2022, 85 milljónir króna á ári. Ekki kemur fram í ársreikningi Dalsdals ehf. hver lánaði því félagi fjármagn til að lána Frjálsri fjölmiðlun en þar segir að Dalsdalur eigi að greiða þeim aðila alla upphæðina til baka árið 2018, það er í fyrra.
Þá kemur fram í ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlunar að ógreitt kaupverð eigna væri 53 milljónir króna í árslok 2017. Eigið fé félagsins var neikvætt um 13,3 milljónir króna um síðustu áramót, inngreitt hlutafé var 30 milljónir króna og félagið átti 14,6 milljónir króna í handbæru fé.