„Ég mun beina þeim tilmælum til nýkjörinnar stjórnar að haga sínum fjárfestingum með þeim hætti að það verði ekki fjárfest í fyrirtækjum sem eru með kaupréttarsamninga eða ofurlaun eða bónusa. Eða haga sér með þeim hætti eins til dæmis eins og Almenna leigufélagið, að beina viðskiptum sínum frá slíkum félögum. Það verða skýr skilaboð sem við munum senda nýrri stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut klukkan 21 í kvöld.
Ný stjórn verður kosin í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, næst stærsta lífeyrissjóðs landsins og eins stærsta fjárfestis á íslenska markaðnum, á næstu vikum en yfirstandandi kjörtímabil stjórnarinnar er til loka febrúar 2019.. Stjórn VR tilnefnir helming stjórnarmanna en samtök ýmissa atvinnurekenda hinn helminginn. Á næsta kjörtímabili verður stjórnarformaðurinn úr röðum þeirra sem VR tilnefnir.
Ragnar segir að skilaboð sín út á við vegna þessa séu þau að það verði breyttar og aðrar áherslur heldur en hafa verið. „Það eru skilaboð sem mig langar að senda út inn í fjármálakerfið, að menn skulu þá hugsa sig tvisvar um þegar þeir fara gegn hagsmunum launafólks með þessum hætti, að við munum beita okkur með róttækri hætti heldur en áður hefur verið.“
Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan:
Í þætti kvöldsins ræðir Ragnar Þór þá stöðu sem er komin upp í kjaraviðræðum, fer yfir vonbrigði sín með tillögur ríkisstjórnarinnar í skattamálum og mjög opinberar deilur sínar við Almenna leigufélagið. Stjórn VR gaf í byrjun viku Kviku banka, sem er í þeim fasa að kaupa GAMMA, sem stýrir sjóði sem á Almenna leigufélagið, nokkra daga frest til að rifta kaupum sínum á Gamma vegna leiguhækkana Almenna leigufélagsins, ella myndi VR færa 4,2 milljarða króna sem eru í stýringu hjá bankanum annað.