Aðgerðaáætlun stéttarfélaga - sem samtals ná til um 53 þúsund félagsmanna - miðar að því að félögin verði samstíga í öllum aðgerðum, sem geti hafist með verkfallsaðgerðum í ferðaþjónustu, ekki síst í veitinga- og hótelgeiranum.
Frá þessu var greint í fréttum RÚV í kvöld.
Eins og greint var frá í dag hefur kjaraviðræðum Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur, við Samtök atvinnulífsins, verið slitið.
Útspil stjórnvalda, um að lækka skattbyrði lægstu launa, liðkaði ekki fyrir kjaraviðræðum og því fór sem fór.
Efling er með 18 þúsund félagsmenn, VR tæplega 33 þúsund og hin tvö síðarnefndu tæplega tvö þúsund samtals.
Á vef Eflingar hefur verið birt yfirlýsing vegna þessa þar sem segir að „verkafólk á Íslandi hefur of lengi þurft að þola láglaunastefnu og stjórnlausan ójöfnuð. Verkafólk hefur skapað góðæri síðustu ára með vinnu sinni. Atvinnurekendur hafa þó neitað að ganga að sanngjörnum kröfum Eflingar og samflotsfélaga. Verkfall er þaulreynd og lögvarin aðferð stéttarfélaga til að jafna hlut vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum.“
Í síðustu viku lögðu Samtök atvinnulífsins fram tilboð sem hljóðaði upp á að laun upp að 600 þúsund krónum á mánuði myndu hækka um 20 þúsund krónur á mánuði hvert ár samningsins, sem gert var ráð fyrir að gilti til þriggja ára. Hærri laun áttu að hækka um 2,5 prósent.
Efling, VR og verkalýðsfélög Akraness og Grindavíkur sögðu tilboðið leiða til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólks. Þau lögði fram gagntilboð á föstudag þar sem komið var „til móts við kauphækkunarboð Samtaka atvinnulífsins, með því skilyrði að yfirvöld setji fram og standi við skattkerfisbreytingar.“ Samtök atvinnulífsins höfnuðu gagntilboðinu.
Á þriðjudag kynnti ríkisstjórnin svo ýmsar aðgerðir sem hún er tilbúin að ráðast í til að liðka fyrir farsælli niðurstöðu kjarasamninga. Á meðal þeirra aðgerða voru skattkerfisbreytingar sem í fólst að bæta við nýju lægra skattþrepi og stuðla að skattalækkun upp á tæpar sjö þúsund krónur á mánuði upp að 900 þúsund króna mánaðartekjum.
Viðbrögð verkalýðsforystunnar við útspili ríkisstjórnarinnar voru flest á einn veg: vonbrigði og að líkur hefðu þar með aukist á að verkföll myndu skella á í mars.