Efling, VR, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur hafa slitið kjaraviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins. Aðilar máls hittust á fundi hjá ríkissáttasemjara sem hófst í dag klukkan 14 og stóð til að hann yrði í um einn og hálfan tíma.
Tæpum 40 mínútum eftir að fundur hófst var honum hins vegar lokið með ofangreindri niðurstöðu. Ekkert tilboð kom frá Samtökum atvinnulífsins á fundinum, samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Á vef Eflingar hefur verið birt yfirlýsing vegna þessa þar sem segir að „verkafólk á Íslandi hefur of lengi þurft að þola láglaunastefnu og stjórnlausan ójöfnuð. Verkafólk hefur skapað góðæri síðustu ára með vinnu sinni. Atvinnurekendur hafa þó neitað að ganga að sanngjörnum kröfum Eflingar og samflotsfélaga. Verkfall er þaulreynd og lögvarin aðferð stéttarfélaga til að jafna hlut vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum.“
Ljóst að komið var að vatnaskilum
Formenn verkalýðsfélaganna fjögurra sem eru í samfloti í kjaraviðræðum, fengu öll umboð til að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins í gær.
Nú þegar búið er að slíta viðræðum hefst undirbúningur verkfallsaðgerða en leita þarf samþykkis félagsmanna hvers félags fyrir sig áður en í þær verður ráðist.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gær að undirbúningur fyrir næstu skref væru komin langt á leið og benti á að 80 prósent félagsmanna hafi í könnun sagst vera hlynnt því að fara í verkfall. „Við lítum svo á að við séum fólkið sem hefur svo sannarlega búið til góðærið, búið til hagvöxtinn og með vinnu okkar komið Íslandi upp úr þeirri djúpu efnahagskreppu sem að landið var komið í sökum brjálsemi kapítalista. Við lítum svo á að okkar tími sé einfaldlega kominn til þess að fá það sem við raunverulega eigum inni.“
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, að komið væri að einhvers konar vatnaskilum í viðræðunum. Halldór ítrekaði að kjaraviðræður snúist um uppbyggingu lífskjara og þróun samfélagsins. Enn fremur sagði hann að Samtök atvinnulífsins hafi lagt fram heildstætt tilboð þar sem þau meti hvað samfélagið geti borið án þess að farið verði í verðhækkanir, uppsagnir og verðbólga fari af stað.
Í takti við síðustu vendingar
Í síðustu viku lögðu Samtök atvinnulífsins fram tilboð sem hljóðaði upp á að laun upp að 600 þúsund krónum á mánuði myndu hækka um 20 þúsund krónur á mánuði hvert ár samningsins, sem gert var ráð fyrir að gilti til þriggja ára. Hærri laun áttu að hækka um 2,5 prósent.
Efling, VR og verkalýðsfélög Akraness og Grindavíkur sögðu tilboðið leiða til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólks. Þau lögði fram gagntilboð á föstudag þar sem komið var „til móts við kauphækkunarboð Samtaka atvinnulífsins, með því skilyrði að yfirvöld setji fram og standi við skattkerfisbreytingar.“ Samtök atvinnulífsins höfnuðu gagntilboðinu.
Á þriðjudag kynnti ríkisstjórnin svo ýmsar aðgerðir sem hún er tilbúin að ráðast í til að liðka fyrir farsælli niðurstöðu kjarasamninga. Á meðal þeirra aðgerða voru skattkerfisbreytingar sem í fólst að bæta við nýju lægra skattþrepi og stuðla að skattalækkun upp á tæpar sjö þúsund krónur á mánuði upp að 900 þúsund króna mánaðartekjum.
Viðbrögð verkalýðsforystunnar við útspili ríkisstjórnarinnar voru flest á einn veg: vonbrigði og að líkur hefðu þar með aukist á að verkföll myndu skella á í mars.