Formenn verkalýðsfélaganna fjögurra sem eru í samfloti í kjaraviðræðum, Efling, VR, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Verkalýðsfélag Akraness hafa öll fengið umboð til að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Formennirnir funda með framkvæmdastjóra SA hjá ríkissáttasemjara í dag en líklegt þykir að viðræðunum verði formlega slitið í dag nema SA komi til móts við kröfur verkalýðsfélaganna. Verði viðræðum slitið hefst undirbúningur verkfallsaðgerða, sem þarf þó samþykki félagsmanna fyrir.
Sólveig á ekki von á tilboði
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gær, að hún byggist ekki við því að SA leggi fram nýtt tilboð á morgun. „Nei, ég á ekki sérstaklega von á því en við bara sjáum hvað gerist á morgun. Ég er þá í það minnsta komin með þessa heimild frá mínu fólki. Þetta var bara algjörlega afdráttarlaus niðurstaða,“ sagði Sólveig Anna
Hún sagði jafnframt að undirbúningur fyrir næstu skref væru komin langt á leið og benti á að 80 prósent félagsmanna hafi í könnun sagst vera hlynnt því að fara í verkfall. „Við lítum svo á að við séum fólkið sem hefur svo sannarlega búið til góðærið, búið til hagvöxtinn og með vinnu okkar komið Íslandi upp úr þeirri djúpu efnahagskreppu sem að landið var komið í sökum brjálsemi kapítalista. Við lítum svo á að okkar tími sé einfaldlega kominn til þess að fá það sem við raunverulega eigum inni,“ sagði formaðurinn.
Segir að SA hafi lagt fram heildstætt tilboð
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun, að komið væri að einhvers konar vatnaskilum í viðræðunum. Halldór ítrekaði að kjaraviðræður snúist um uppbyggingu lífskjara og þróun samfélagsins. Enn fremur sagði hann að Samtök atvinnulífsins hafi lagt fram heildstætt tilboð þar sem þau meti hvað samfélagið geti borið án þess að farið verði í verðhækkanir, uppsagnir og verðbólga fari af stað. „Samtök atvinnulífsins munu ekki hleypa verðbólgunni af stað," sagði hann að lokum.