Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti á blaðamannafundi í gær að 630 milljónum króna af fjárlögum ársins verði ráðstafað til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Fénu verður annars vegar varið í að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslu og efla þannig fyrsta stigs þjónustu heilsugæslunnar. Og hins vegar að efla sérhæfðari þjónustu á sviði geðheilbrigðismála með áframhaldandi uppbyggingu geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Geðheilsuteymi eru ætluð þeim sem þurfi meiri og sérhæfðari þjónustu en veitt er á heilsugæslustöðvum.
Hægt að fá meðferð vegna algengustu geðraskana í heilsugæslunni
Í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að hlutverk heilsugæslunnar sé að veita fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu og því þurfi hún að vera í stakk búin til að takast á við þau heilbrigðisvandamál fólks sem algengust eru, hvort sem þau vandamál eru af líkamlegum eða geðrænum toga. Því sé uppbygging sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar liður í því að efla heilsugæsluna hvað þetta varðar. Í tilkynningunni segir að þannig eigi fólk að geta fengið meðferð og stuðning vegna algengustu geðraskana, svo sem þunglyndis og kvíðaraskana í heilsugæslunni.
„Góð heilsa snýst ekki einungis um líkamlegt heilbrigði, heldur einnig og ekki síður góða andlega heilsu. Heilbrigðisþjónustan þarf að taka mið af þessu og byggjast upp í samræmi við það,“ segir í tilkynningunni.
Geðheilsuteymin mæta flóknari vanda fólks
Geðheilsuteymin eru síðan hugsuð sem annars stigs heilbrigðisþjónusta og þjónusta þeirra er veitt á grundvelli tilvísana. Þar á að mæta vanda fólks þegar hann er flóknari en svo að hægt sé að mæta honum innan heilsugæslunnar. Tvö geðheilsuteymi eru nú starfandi á höfuðborgarsvæðinu og verið er að undirbúa opnun þess þriðja sem mun þjóna íbúum Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
Samkvæmt tilkynningunni er skipulag og uppbygging geðheilsuteyma á landsbyggðinni komin mislangt á veg en að undirbúningur sé hafinn í öllum heilbrigðisumdæmum og vísir að teymum kominn á Austurlandi og Suðurnesjum. Með þeirri fjárveitingu sem heilbrigðisráðherra kynnti í gær og í samræmi við geðheilbrigðisáætlun er áformað að geðheilsuteymi verði tekin til starfa í öllum heilbrigðisumdæmum fyrir lok þessa árs.
Stórauka möguleikann á að veita geðheilbrigðisþjónustu í heimabyggð
Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að snemmtæk íhlutun sé grundvallaratriði og forvarnir eigi því að skipa ríkan sess. Sú uppbygging geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu sem nú eigi sér stað stórauki möguleikann á því að veita fólki þessa mikilvægu þjónustu í heimabyggð.
Við ákvörðun um skiptingu fjárins milli heilbrigðisumdæma var tekið mið af áætlunum heilbrigðisstofnana um uppbyggingu og eflingu geðheilsuteyma, íbúafjölda í viðkomandi heilbrigðisumdæmum og eins var horft til lýðheilsuvísa Embættis landlæknis.