Niðurstaða fæst í mál Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu, fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, 12. mars næstkomandi.
Í málinu er meðal annars deilt um hæfi dómara til meðferðar í málinu.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi mannsins, setti fram kröfu í Landsrétti þann 2. febrúar í fyrra síðastliðinn um að Arnfríður Einarsdóttir, sem átti að dæma í málinu, væri vanhæf í ljósi þess að hún hefði ekki verið skipuð með réttum hætti í embætti. Landsréttur hafnaði kröfu Vilhjálms og sagði að skipun Arnfríðar yrði ekki haggað.
Vilhjálmur kærði þá niðurstöðu til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og Landsréttur. Þann 24. maí 2018 staðfesti Hæstiréttur dóm Landsréttar í málinu og skjólstæðingur Vilhjálms var dæmdur í 17 mánaða fangelsi.
Landsréttarmálinu var svo vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu sem ákvað að taka kæruna til meðferðar í fyrrasumar.
Arnfríður var einn fjögurra umsækjenda um embætti dómara vil Landsrétt sem dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði til að yrði skipuð í stað þeirra fjögurra sem sérstök dómnefnd mat hæfasta. Hæstiréttur Íslands komst svo að þeirri niðurstöðu í desember 2017 að dómsmálaráðherra hefði brotið stjórnsýslulög með því að sinna ekki rannsóknarskyldu sinni með nægjanlegum hætti þegar hún ákvað að skipta út þeim umsækjendum sem metnir höfðu verið hæfastir af dómnefndinni.
Mannréttindadómstólinn ákvað, líkt og áður sagði, að taka kæruna til meðferðar í lok júní 2018 og fór fram á skýringar frá íslenska ríkinu. Spurningar Mannréttindadómstólsins til íslenska ríkisins voru í tveimur liðum. Þar var annars vegar spurt hvernig það samrýmist ákvæði mannréttindasáttmála að skipun dómara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dómaraefni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um tillögu ráðherrans í heild eins og gert var.
Hins vegar var spurt um niðurstöðu Hæstaréttar frá í maí í samhengi við fyrri dóm Hæstaréttar um brot ráðherrans á lögum við skipunina. Með öðrum orðum vildi Mannréttindadómstólinn vita hvernig ólögleg skipan dómara geti haldist í hendur við þá niðurstöðu að sömu dómarar sitji löglega í réttinum.