„Staðan er í algjörum hnút. Við erum komin með allt að borðinu sem við getum farið og lagt fyrir okkar bakland til ákvörðunar um framhaldið. Það sem við erum með í nestisboxinu í þeim fundarhöldum eru ákvarðanir kjararáðs þar sem embættismannakerfið og alþingismenn og ráðherrar tóku sér hundruð þúsunda í launahækkanir, hlutfallslega um 45 prósent. Á meðan að þeir eru tilbúnir til að liðka fyrir um 6.750 krónum á mánuði til handa okkar félagsmönnum.“
Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut.
Hann sagðist líka geta bent á aðrar launahækkanir. „Við erum með ákvarðanir stjórnar Landsbankans um 80 prósenta launahækkun á bankastjórann þar. Við erum með ýmislegt í farteskinu til að setja hlutina í samhengi gagnvart okkar félagsmönnum sem taka síðan ákvörðun um framhaldið og hversu langt þeir eru tilbúnir til að gagna til þess að sækja fram raunverulegar kerfisbreytingar í okkar samfélagi.“
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Ragnar ræddi líka þann rökstuðning sem haldið hefur verið á lofti vegna launahækkana bankastjóra ríkisbanka, og gaf ekki mikið fyrir hann. „Varðandi samkeppnishæfni, þá hef ég ekki orðið var við, í samtölum við erlenda kollega mína, mikla eftirspurn eftir íslenskum stjórnendum á alþjóðavettvangi. Síður en svo.“