„Hér er talið að út af glufum í skattkerfinu, hvernig ríkasti minnihluti þjóðarinnar kemst hjá því að borga skatt, eða allavega sambærilegt hlutfall og allir hinir, að þetta sé einhvers staðar öðru hvoru megin við 100 milljarða ári í svigrúmi sem hægt væri að gera með því að stoppa í ákveðnar glufur og öðru skattasvindli sem virðist vera stundað kerfisbundið í okkar samfélagi.“
Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Þar ræddi Ragnar einnig stöðu mála í yfirstandandi kjaraviðræðum, en þeim sú blokk sem Ragnar tilheyrir í þeim, og samanstendur af VR, Eflingu og Verkalýðsfélögum Akraness og Grindavíkur, sleit slíkum viðræðum á fimmtudag og undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Ragnar sagði í þættinum að staðan liti ekki vel út og að líkur væru á því að til átaka kæmi á vinnumarkaði.
Slík átök verði þó aldrei nema með vilja félagsmanna, og hann verði kannaður næstu daga.
„Við teljum að mikilvægustu kjarabæturnar náist í gegnum annars vegar kerfisbreytingar, í gegnum þá sanngjarnara skattkerfi, og þetta er þá er þetta kannski miklu mun stærra mál en þessi tilfærsla sem við höfum verið að horfa á í gegnum árin. Þessi ójöfnuður sem hefur skapast í gegnum skattkerfið. Heldur líka er það að hér eru allskyns glufur í okkar skattkerfi. Hér eru peningar geymdir í skattaskjólum án nokkurra athugasemda, koma hér til baka í íslenskt hagkerfi án athugasemda virðist vera.“
Grunnstefið í baráttunni hljóti að vera að laga stöðu þeirra sem nái ekki endum saman. „Þar sjáum við mjög mikla möguleika að bæta og byggja upp sanngjarnara og samkeppnishæfara samfélag.“