Verkfallsaðgerðinar sem hafa verið boðaðar, eftir að kjaraviðræðum var slitið í gær, munu beinast í fyrstu að allt að 25 hótelum og gistihúsum á höfuðborgarsvæðinu og einnig stærstu rútufyrirtækjunum.
Þetta hefur Ragnar Þór Ingfólsson, formaður VR, staðfest í viðtali við fjölmiðla í dag, en endanleg áætlun hefur þó ekki verið kláruð ennþá.
Í verkfjallssjóðum stéttarfélaganna eru til um sjö milljarðar króna, og því geta verkföll staðið nokkuð lengi, fari svo að samningar náist ekki.
Innan Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur eru nú um 53 þúsund félagsmenn.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hvatti aðila vinnumarkaðarins, til þess að reyna að ná samningum, í viðtölum við fjölmiðla í gær og sagði að það væru hagsmunir allra að ná samningum um kaup og kjör.
Samtök atvinnulífsins birtu í dag umfjöllun á vef sínum um kröfur Eflingar, og fullyrt er þar að þær geri ráð fyrir allt að 80 prósent hækkun launa út samningstímann miðað við kröfurnar.
„Kröfugerðin fól þannig í sér að lægstu byrjunarlaun hækkuðu um 59% á samningstímanum og hæsta aldursþrep í hæsta virka launaflokki kjarasamningsins hækkaði um 82%. Í krónum talið var gerð krafa um að lægstu byrjunarlaun hækkuðu um 158 þús.kr. á mánuði en laun í hæsta aldursþrepi í hæsta virka launaflokki um 248 þús.kr. á mánuði. Lægstu launin hækkuðu þannig minnst í krónum og prósentum en hæstu umsömdu launin um hæstu prósentuna og hæstu krónutöluna,“ segir á vef SA.