Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, furðar sig á skilningsleysi ráðamanna landsins og forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins, þegar kemur að mikilvægi þess að bæta kjör þeirra sem lægstu launin hafa í samfélaginu.
Hann kallar jafnframt eftir því að grasrót Vinstri grænna og Framsóknarflokksins, sýni klærnar, endi kenni þessir flokkar sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð.
Þetta kemur fram á Facebook síðu Vilhjálms.
Eins og kunnugt er hefur kjaraviðræður verið slitið, og félög með 53 þúsund félagsmenn - Efling, VR, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur - eru með verkafallsaðgerðir á teikniborðinu.
Vilhjálmur birtir á síðu sinni yfirlit yfir lægstu launin, og biður fólk um að velta þeim fyrir sér og hvort það séu óeðlilegar kröfur að biðja um að launin verði hækkuð svo fólk geti lifað sómasamlegu lífi.
Í Facebook færslunni segir Vilhjálmur:
„Jæja þá halda þær skefjalausu árásir á okkur í verkalýðshreyfingunni áfram eins og heyrðist t.d. í þættinum Sprengisandi í morgun og mér finnst það þyngra en tárum taki að ekki sé meiri skilningur frá ýmsu áhrifafólki í íslensku samfélagi fyrir því að lagfæra þurfi kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.
Þessir launataxtar sem eru hér að neðan eru þeir launataxtar sem eru í gildi fyrir íslensk verkafólk en langstærsti hluti okkar fólks er í launafokkunum frá 6 til 9 og ætlar einhver að halda því fram að hægt sé að framfleyta sér á slíkum launatöxtum?
Að hugsa sér að við í verkalýðshreyfingunni séum nánast kölluð ofbeldisfólk fyrir að vilja berjast af alefli fyrir því að þessir launataxtar séu lagfærðir þannig að fólk eigi ögn meiri möguleika að ná endum saman er grátlegt.
Það er einnig dapurt að vera sakaður af sjálfum fjármálaráðherra að hafa aldrei ætlað að semja og viljað bara átök. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir og eru algjör rógburður sem stenst ekki eina einustu skoðun.
Fjármálaráðherra er t.d. fullkunnugt um þá gríðarlegu vinnu sem við höfum lagt á okkur við að ná saman samningum, tugum funda með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins að ógleymdum tugum samtala í gegnum síma og með óformlegum samtölum. Honum er líka væntanlega kunnugt um öll símtölin og fundina sem við höfum átt við ráðamenn á liðnum vikum til að finna leiðir sem myndi leiða til þess að aðkoma stjórnvalda mundi hjálpa til við koma á kjarasamningi.
Að saka okkur um að vilja ekki semja er ömurleg nálgun á þessa erfiðu stöðu sem uppi er á íslenskum vinnumarkaði, en okkar markmið er að sjálfsögðu að ná fram kjarasamningum og koma í veg fyrir átök á íslenskum vinnumarkaði.
Það er gríðarleg ábyrgð sem fylgir því að vera forystumaður í verkalýðshreyfingunni, enda ertu að berjast fyrir lífsviðurværi félagsmanna þinna og ég geri mér svo sannarlega grein fyrir þeirri ábyrgð. En mér finnst eins og fulltrúar SA og stjórnvalda skynji ekki sína ábyrgð, enda er morgunljóst að við þurfum að tryggja að hægt sé að auka ráðstöfunartekjur lág-og lægri millitekjuhópa þannig að hægt sé að framfleyta sér frá mánuði til mánaðar.
Ég bið fólk um að velta þessum launatöxtum vel fyrir sér og spyrja sig síðan að því hvort það sé skrýtið að verkalýðshreyfingin sé grimm í því að vilja lagfæra þessa lágmarkslaunataxta. Munum einnig að 3 herberja íbúð á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu er hærri en þessir launataxtar kveða á um!
Ég spyr einnig, hver er grasrót Vinstri grænna og framsóknarflokksins, en þessir flokkar kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð.
Er það félagshyggja og réttlæti að verið sé að skattleggja lágtekjufólk á meðan lágmarkslaun duga ekki fyrir framfærsluviðmiðum sem stjórnvöld gefa út? Þessari spurningu þarf grasrót þessara flokka að spyrja sig að!“.