Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. sendi Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tölvupóst þann 15. maí 2018 þar sem Kristján óskaði eftir því að ráðherra myndi breyta reglugerð um vinnslu og heilbrigðiseftirlit með hvalaafurðum. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Tíu dögum síðar skrifaði ráðherra undir breytingu á reglugerðinni. Í henni fólst meðal annars að 10. gr í reglugerðinni var breytt á þann veg að ekki var lengur gerð krafa um að skera hval á yfirbyggðum skurðarfleti.
Reglum um hvalskurð var aldrei fylgt
Árið 2009 tók gildi reglugerð um vinnslu og heilbrigðiseftirlit með hvalaafurðum. Í henni var kveðið á um að hvalskurður skuli hefjast um leið og hvalur er kominn á land og að skurðarflöturinn skuli vera innandyra eða undir yfirbyggðum fleti. Það ákvæði kom þó ekki til áhrifa fyrr en ári seinna, árið 2010. Fréttablaðið greindi frá því í ágúst síðastliðnum að reglum um hvalskurð hefði aldrei verið fylgt af félaginu Hvalur hf. þar sem aldrei var byggður yfirbyggður skurðarflötur hjá Hval hf. eins og reglugerðinni sagði til um.
10 dögum síðar samþykkti ráðherra breytingu á 10 grein
Í bréfi Kristjáns Loftssonar eiganda Hvals hf., sem Fréttablaðið hefur undir höndunum, segir að reglugerð um vinnslu og heilbrigðiseftirlit með hvalaafurðum frá 28. maí 2009 innihaldi ýmis ákvæði sem séu „úr sér gengin“ og segir að fyrirtækið hafi þróað og notað aðferðir í mörg ár með miklu betri árangri en mælt sé fyrir í reglugerðinni.
Kristján segir jafnframt að hann hafi farið fram á að reglugerðinni yrði breytt við nokkra af forverum ráðherra í starfi. Hann sendi með tölvupóstinum tillögur sínar um breytingar á reglugerðinni en hann segir það vonlaust að sækja um vinnsluleyfi nema reglugerðinni sé breytt. „Eins og þetta er í pottinn búið tel ég vonlaust að sækja um vinnsluleyfi fyrir komandi vertíð með reglugerðina óbreytta. Vísa ég þar sérstaklega til 10 [sic] gr. reglugerðarinnar,“ stendur í bréfi forstjórans.
Í þeirra grein kvað á um að skurður á hvölum skuli framkvæmdur innandyra eða undir yfirbyggðum skurðarfleti verkunarstöðva, „Ákvæði 2. mgr. 10. gr., þar sem kveðið er á um að skurður á hvölum skuli framkvæmdur innandyra eða undir yfirbyggðum skurðarfleti verkunarstöðva, koma þó eigi til framkvæmda fyrr en 1. júní 2010.“
Þann 25. maí 2018 samþykkir Kristján Þór Júlísson breytingu um reglugerð um vinnslu og heilbrigðiseftirlit með hvalaafurðum þar sem fram kemur að 10. grein reglugerðarinnar hafi verið breytt á þann hátt að hvalskurður skal gerður á skurðarfleti með viðeigandi vörnum. „1. máls. 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi: Hvalskurður skal hafinn eins fljótt og auðið er eftir að hvalur er kominn á land á skurðarfleti með viðeigandi vörnum sem koma í veg fyrir mengun afurða samkvæmt áhættumati sem rekstraraðili gerir.“
Samþykkti áframhaldandi hvalveiðar
Í síðustu viku samþykkti Kristján Þór að heimila áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu næstu fimm árin. Nær ákvörðunin til veiða jafn lengi og fyrri reglugerð gerði.