Samtök atvinnulífsins skora á Eflingu að stöðva nú þegar atkvæðagreiðslu um verkfall sem koma á til framkvæmda 8. mars næstkomandi. SA telja ólöglega staðið að atkvæðagreiðslu um verkfallið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA sem samtökin sendur frá sér í dag.
Í henni segir jafnframt að verði Efling ekki við áskorun Samtaka atvinnulífsins munu SA höfða félagsdómsmál gegn stéttarfélaginu. Niðurstaða dómsins muni liggja fyrir áður en verkfalli er ætlað að koma til framkvæmda.
„Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er heimilt að láta vinnustöðvun einungis ná til ákveðins hóps félagsmanna en þá er ákvörðun tekin með atkvæðum þeirra sem vinnustöðvun er ætlað að taka til.
Samkvæmt fréttum áætlar Efling að verkfallið nái til 700 félagsmanna en félagið hefur hins vegar boðið yfir 8000 félagsmönnum að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallið. SA telja það fyrirkomulag ólögmætt enda mætti með þeim hætti fá verkfall samþykkt jafnvel þótt allir þeir sem vinnustöðvun er ætlað að taka til greiði atkvæði gegn verkfalli,“ segir í tilkynningunni.
Vinnustöðvunin tekur til veitinga- og hótelþjónustu
Fundur samninganefndar Eflingar samþykkti þann 21. febrúar síðastliðinn að láta fara fram almenna leynilega rafræna allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar meðal þeirra félagsmanna Eflingar sem vinna samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi og sem rann út þann 31. desember 2018.
„Vinnustöðvunin taki til allra þrifa, hreingerninga og frágangs herbergja og annarrar gistiaðstöðu þ.m.t. á göngum, salernum og í sameiginlegu rými á öllum hótelum og gistihúsum á því félagssvæði Eflingar-stéttarfélags sem tekur til starfa á veitinga- og gistihúsum sem nánar tilgreint er lögsagnar umdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Kjósarsýslu að Botnsá, Grímsnes og Grafningshrepps, Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfus auk Hafnarfjarðar og Garðabæjar.
Vinnustöðvun ofangreindra félagsmanna er tímabundin og hefst klukkan 10:00 að morgni 8. mars 2019 og lýkur klukkan 23:59 þann 8. mars 2019 nema kjarasamningar hafi tekist fyrir þann tíma. Atkvæðagreiðslunni skal lokið eigi síðar en kl. 22:00, fimmtudaginn 28.2 2019,“ segir í samþykkt samninganefndar Eflingar.
Atkvæðagreiðslan hófst í morgun
Samkvæmt tilkynningu frá Eflingu sem send var út í dag hófst atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun félagsmanna Eflingar á hótelum og gistihúsum þann 8. mars – alþjóðlegur baráttudagur kvenna - klukkan 10:00 í morgun.
„Hægt verður að greiða atkvæði rafrænt á vef Eflingar en einnig verður fólki gert kleift að greiða atkvæði í kosningarútu Eflingar sem lagði af stað klukkan 10.00 og keyrir næstu daga á milli vinnustaða og safnar utankjörfundaratkvæðum,“ segir í tilkynningu Eflingar.