Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, segir hótelstjóra City Park Hotel hafa reynt að hindra félagsmenn sem vilja kjósa í atkvæðagreiðslu um verkfall en hún greinir frá þessu á Facebook-síðu Eflingar í dag. Árni Sólonsson, hótelstjóri City Park Hotel, segir í samtali við Kjarnann þetta ekki eiga við rök að styðjast.
„SA hótaði Eflingu í morgun ákæru ef atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna yrði ekki stöðvuð. Og ekki nóg með það. Yfirmaður hjá City Park Hotel reyndi að koma í veg fyrir að félagsmenn okkar gætu tekið þátt í kosningunni. Lýðræði á ekki upp á pallborðið hjá yfirstéttinni í dag,“ segir í færslunni.
Sólveig Anna segir í myndbandsklippu með færslunni á Facebook að hótelstjórinn hafi tekið á móti þeim til að tilkynna að þar ætlaði enginn að kjósa. Hún segist hafa spurt hann af hverju enginn ætli að kjósa og hann svarað að auðvitað vilji þau kjósa en að enginn vilji fara í verkfall. Sólveig spurði hann hvernig hann vissi það „Svo hélt hann áfram að þusa og svo raunverulega meinaði hann okkur aðgang og það kom í ljós að starfsfólkið sem ætlaði að kjósa var allt komið upp aftur og var raunverulega búið að senda þeim þau skilaboð að þau mættu ekki kjósa á sínum vinnutíma,“ segir Sólveig Anna í klippunni.
Í Facebook-færslu Eflingar segir að pólskumælandi starfsmaður Eflingar hafi staðfest að starfsfólkið vildi víst kjósa og að yfirmaðurinn væri einfaldlega að segja ósatt.
„Óeðlilegt að draga fólk út í bíl“
Árni segir aftur á móti í samtali við Kjarnann að Efling hafi boðað komu sína klukkan tólf í dag en reglum samkvæmt þurfi að tala við yfirmann um nákvæma tímasetningu. Hann hafi sagt að það væri í lagi að Efling kæmi í staðinn klukkan tvö vegna þess að starfsfólkið væri í vinnunni í hádeginu. Efling hefði rétt á koma þegar starfsfólkið væri í pásu.
Hann segir að hann hafi verið að tala við Sólveigu Önnu þegar síminn hennar hringdi og hún svarað. Honum hafi fundist það mikill dónaskapur og víst hún hafi ekki viljað tala við hann þá vísaði hann henni á dyr.
„Fólk getur auðvitað greitt atkvæði hvernig sem það vill og á netinu. En mér finnst óeðlilegt að draga það út í bíl til þess,“ segir Árni og bætir því við að starfsfólk hans hafi sagt að því væri mjög svo brugðið við framkomu Eflingar. „Ég hvatti þau til að greiða atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu. Ég vill að það sé gert á réttan hátt, á réttum stöðum. Ekki í einhverjum bíl undir stjórn Sólveigar.“
Hann telur að Efling hafi komið til að sækja atkvæði og segir hann að starfsmenn hafi ekki fengið kynningu frá stéttarfélaginu. Hann telur þannig að upplýsingagjöf þurfi að vera betri því ekki sé eðlilegt að starfsmenn fá einungis upplýsingar frá honum.
Hér fyrir neðan má sjá myndband Eflingar.
Hótelstjóri reynir að hindra félagsmenn sem vilja kjósaSA hótaði Eflingu í morgun ákæru ef atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna yrði ekki stöðvuð. Og ekki nóg með það. Eigandi City Park Hotel reyndi að koma í veg fyrir að félagsmenn okkar gætu tekið þátt í kosningunni. Lýðræði á ekki upp á pallborðið hjá yfirstéttinni í dag. Sólveig Anna var á staðnum þegar þetta gerðist -- sem og pólskumælandi starfsmaður Eflingar, sem staðfesti að yfirmaðurinn væri einfaldlega að segja ósatt.
Posted by Efling on Monday, February 25, 2019