„Viðbrögð Seðlabankans, fyrst með fréttatilkynningu í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli bankans gegn Samherja, hinn 13. nóvember 2018, og síðan með yfirlýsingu í tilefni af álíti umboðsmanns Alþingi, hinn 19. febrúar 2019, eru ekki til merkis um að stjórnendur bankans taki til sín þá alvarlegu gagnrýni á starfsemi og stjórnsýslu bankans sem þar kom fram. Þá eru þau afskipti bankans af störfum bankaráðs, sem að framan eru rakin, í kjölfar þess að því bárust fyrirspurnir frá forsætisráðherra í kjölfar þess að dómur Hæstaréttar gekk í máli Samherja hf., óforsvaranleg.“
Þetta segir í lokaorðum bókunar Þórunnar Guðmundsdóttur og Sigurðar Kára Kristjánssonar, bankaráðsmanna Seðlabanka Íslands, en í bókuninni gagnrýna þau Seðlabanka Íslands harðlega.
Sérstaklega er minnst á viðbrögð bankans við því, að bankaráð tæki saman greinargerð, sem fjallað var um á vef Kjarnans fyrr í dag, fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, vegna Samherjamálsins svonefnda.
Segja þau í bókuninni að lögfræðiráðgjöf Seðlabanka Íslands hafi reynt að hafa afskipti af vinnu bankaráðsins, og við það eru gerðar alvarlegar athugasemdir.
„Við undirrituð teljum nauðsynlegt að að gera alvarlegar athugasemdir við framgöngu
Seðlabankans í kjölfar þess að bankaráð hóf vinnu sína við að svara erindi forsætisráðherra frá
12. nóvember 2018. Þær athugasemdir lúta að því að hinn 7. desember 2018 barst bankaráði minnisblað frá lögfræðiráðgjöf Seðlabanka íslands með yfirskriftinni "Athugasemdir varðandi ósk forsætisráðherra um greinargerð bankaráðs vegna dóms Hæstaréttar íslands í máli Seðlabanka íslandsgegn Samherja.
Segir í minnisblaðinu að bankaráðið hafi hafið vinnu við skrif greinargerðar en að lögfræðiráðgjöf Seðlabankans geri verulegar athugasemdir viðfyrirhuguð efnistök, sem kunna að valda því að lögboðinn trúnaður verði brotinn .... 1/
Vart þarf að taka fram að lögum samkvæmt er ekki ráð fyrir því gert að Seðlabanki íslands hafi
eftirlit með eigin embættisfærslum og stjórnvaldsákvörðunum. Er það því ekki hlutverk bankans að gera athugasemdir við eða að reyna að hafa áhrif á efnistök svara bankaráðs við fyrirspurn forsætisráðherra þegar bankaráðið sinnir lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.
Enn síður getur talist eðlilegt, hvað þá lögum samkvæmt, að Seðlabankinn geri tilraun til þess að
hindra að bankaráðið svari fyrirspurnum þess ráðherra sem málefni bankans heyra undir með
þeim hætti sem gert var í minnisblaði lögfræðiráðgjafar hans,“ segir í bókun Þórunnar og Sigurðar Kára.
Í bókun þeirra segir enn fremur að Alþingi þurfi að taka samskipti yfirstjórnar Seðlabankans við Umboðsmann Alþingis, Tryggva Gunnarsson, til skoðunar. „Undirrituð telja að Alþingi hljóti, í ljósi þeirra lýsinga sem fram koma í áðurnefndu áliti umboðsmanns Alþingis á samskiptum hans við Seðlabankann, að taka framgöngu yfirstjórnar bankans í samskiptum sínum við umboðsmann til sérstakrar umfjöllunar og skoðunar,“ segir í bókuninni.