Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sat fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði hana hvort henni fyndust kröfur ræstingafólks eðlilegar og hvort von væri á frekari tillögum frá ríkisstjórninni varðandi kjaramál.
Hún sagði það vera kunnuglegt stef að fólk borðaði ekki meðaltölin og exel-skjölin en bætti því við að fólk borðaði ekki heldur óstöðugleika. „Fólk borðar ekki heldur verðbólgu eða vaxtahækkanir,“ sagði hún.
Þordís Kolbrún sagði að ef hún væri spurð hvort henni fyndist laun hinna lægst launuðu fullkomlega réttlát þá myndi hún svara: Að sjálfsögðu ekki. „Það er ekki til það samfélag í þessum heimi þar sem lægst launuðu lifa við mjög öflugt og mikið réttlæti. En þá þarf að horfa á á hvaða vegferð höfum við verið. Þegar við skoðum – og það má kalla það meðaltöl sem enginn étur en ég kýs að kalla það staðreyndir og við hljótum að tala út frá staðreyndum – uppsafnaða raunávöxtun ráðstöfunartekna þá er það mynd sem sýnir ákveðið réttlæti. Vegna þess að tekjulægstu tíundirnar hafa fengið meira hlutfallslega heldur en þeir tekjuhæstu. Þannig að þegar horft er á þá mynd þá hugsa ég að sú þróun sé á vegferð einhvers réttlætis,“ sagði ráðherra í pontu Alþingis.
Alltaf erfitt að tala um þá tekjulægstu
Hún sagði að hana langaði að vera almennileg og geta sagt að henni fyndist að allir ættu skilið að fá hærri laun. „Hverri og einni manneskju finnst hún þess verðug og þannig á okkur að líða. Og þess vegna er alltaf erfitt að tala um þá hópa sem eru með lægstu launin.“
Þess vegna séu tillögur ríkisstjórnarinnar sérstaklega beint að þessum hóp. „En það þarf einfaldlega að finna út hvert er svigrúm til launahækkana og svo er það þessara aðila að finna út úr því hvernig því er skipt. Ég get ekki gerst dómari í því og þess vegna hef ég líka sagt að það er óheppilegt þegar maður getur ekki einu sinni lagt mat á raunverulegar kröfur af því að deiluaðilar rífast líka um þær – hverjar þær eru,“ sagði ráðherra.
Þarf líka að horfa til sveitarfélaganna
Logi spurði hana aftur hvort henni fyndust þessi lægstu laun vera sanngjörn og hvort von væri á einhverju frá ríkisstjórninni.
Þórdís Kolbrún sagði að svarið lægi í þeim tillögum sem kynntar voru hér fyrir örfáum dögum. Þar væri tekið á ýmiss konar kerfisbreytingum í skattkerfinu. „Við höfum þegar lagt töluvert meiri fjármuni í barnabótakerfið og svo framvegis. Hér er sagt að það hefði átt að halda betur á spilunum. Við erum samt með þá stöðu að hér ríkir lítið atvinnuleysi, hér hefur kaupmáttur aukist og þegar fjallað er um mál sem snerta þessa hópa hvað mest þá er alveg augljóst af allri umræðu að húsnæðismálin eru þar stór þáttur,“ sagði hún. Þess vegna væri sérstök áhersla lögð á þá þætti í þessum tillögum ríkisstjórnarinnar.
Hún telur þó að ekki eigi einungis að horfa til ríkisins heldur einnig til sveitarfélaganna. „Þá má alveg velta því fyrir sér hvað sveitarfélög í þessu landi og þá kannski sérstaklega Reykjavíkurborg hefði getað gert öðruvísi, hefði getað haldið betur á spilum til þess að það væru til fleiri íbúðir á markaðnum. En allar okkar aðgerðir miða sérstaklega að því að mæta þessum hópum,“ sagði hún.