Markaðsvirði Marel er nú tæplega 335 milljarðar króna og hefur það aukist um 23,24 prósent á einum mánuði.
Á undanförnum rúmum tveimur vikum hefur virði fyrirtækisins hækkað um tæplega 35 milljarða. Í lok dags 12. febrúar fór markaðsvirði fyrirtækisins í fyrsta skipti yfir 300 milljarða króna.
Hækkunin á undanförnu ári nemur tæplega 33 prósentum.
Evrópska sjóðstýringarfélagið Teleios Global á nú orðið um 1,92 prósent hlutafjár í félaginu eftir mikil kaup á hlutafé að undanförnu. Virði þess nemur um 6,4 milljörðum króna.
Eyrir Invest er stærsti eigandi félagsins, með 27,9 prósent hlut, en íslenskir lífeyrissjóðir eru einnig meðal stærstu hluthafa og er Lífeyrissjóður verslunarmanna þeirra stærstur, með 9,74 prósent hlut.
Virði hluta Eyris í Marel nemur nú 93,4 milljörðum króna.
Hagnaður ársins 2018 hjá Marel nam í heildina 122,5 milljónum evra, um 16,8 milljörðum króna, sem er aukning um 26,4 prósent frá árinu áður þegar það var 96,9 milljónir evra, eða um 13,5 milljörðum króna.
Áform um skráningu hlutabréfa Marel í alþjóðlegri kauphöll ganga samkvæmt áætlun, sagði í tilkynningu félags í kauphallar, í tilefni af uppgjöri fjórða ársfjórðungs í fyrra.
Á aðalfundi félagsins 2018 tilkynnti Ásthildur Margrét Otharsdóttir stjórnarformaður Marel, að STJ Advisors, óháðir alþjóðlegir ráðgjafar, hefðu verið fengnir til að greina mögulega skráningarkosti fyrir félagið.
„Unnið er að því að fá tvo alþjóðlega fjárfestingabanka til ráðgjafar við skráningarferlið. Um leið og ákvörðun um kauphöll liggur fyrir, mun Marel leita ráðgjafar hjá þarlendum fjármálastofnunum. Stjórn Marel telur, byggt á ráðgjöf stjórnenda og STJ Advisors, að tvíhlíða skráning í alþjóðlegri kauphöll sé til hagsbóta fyrir bæði núverandi og verðandi hluthafa Marel. Aðrir skráningarkostir sem voru til skoðunar voru að vera áfram skráð félag á Íslandi eingöngu eða afskrá félagið á Íslandi og skrá það að fullu erlendis. Hluti af greiningarferlinu var ítarleg upplýsingabeiðni sem var send á fimm alþjóðlegar kauphallir. Í framhaldi voru skráningarkostir þrengdir niður í þrjár kauphallir, Amsterdam, Kaupmannahöfn, og London. Valið stendur nú fyrst og fremst á milli Euronext í Amsterdam og Nasdaq í Kaupmannahöfn,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.
Heildarvirði skráðra félaga í kauphöllinni nemur nú tæplega þúsund milljörðum króna, og er Marel langsamlega stærsta félagið á aðallistanum, sé horft til markaðsvirðis.