Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar hefur óskað eftir því að láta af störfum sem forstjóri fyrirtækisins frá og með 1. júní, samkvæmt samkomulagi við stjórn Sýnar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sýn. Stjórnarformaður Sýnar er Heiðar Guðjónsson, en aðrir stjórnarmenn eru Hildur Dungal, Anna Guðný Aradóttir, Hjörleifur Pálsson og Yngvi Halldórsson.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um ráðningu forstjóra í hans stað en ráðningarferli er hafið. Stefán mun verða stjórninni innan handar þar til nýr forstjóri er ráðinn, að því er segir í tilkynningu.
Stjórn félagsins hefur falið Heiðari Guðjónssyni stjórnarformanni að annast í auknum mæli skipulag félagsins og fylgjast með rekstrinum.
Í tölvupósti sem Stefán sendi starfsmönnum Sýnar í kvöld, og vitnað er til á fréttavefnum Vísi, sem Sýn á, segir að ákvörðun hans um starfslok á þessum tímapunkti sé tvíþætt.
„Ég vil í fyrsta lagi taka ábyrgð á því að afkomuspár hafa ekki gengið eftir og í öðru lagi viðurkenna að mikil orka fór á síðasta ári í samrunann og ég tel að félagið þurfi á þessum tímapunkti forstjóra með fulla tanka af orku,“ segir í frétt Vísis.
Stefán hefur gegnt starfi forstjóra síðan árið 2014, þegar hann var ráðinn forstjóri Vodafone en félagið tók svo upp nýtt nafn, þegar félagið keypti hlut af eignum 365 miðla fyrir 6,8 milljarða króna, að teknu tilliti til yfirtöku skulda upp á 4,6 milljarða króna, en skrifað var undir samninga um kaupin í desember 2016.
Markaðsvirði félagsins hefur fallið um tæplega 40 prósent á einu ári og nemur nú rúmlega 11,4 milljörðum króna.