„Fyrir mér hefur það verið augljóst í langan tíma að þegar við horfum inn í þetta kjarasamningsumhverfi þá sé rótin á þessu, hún liggi fyrst og fremst á fasteignamarkaði.“
Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, i viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur verður klukkan 21 í kvöld.
Þar ræðir hann meðal annars stöðu mála í kjaraviðræðum, yfirvofandi verkföll, útspil ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir lausn í viðræðum vinnumarkaðarins og launahækkanir ríkisforstjóra. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Halldór segir að staðan á Íslandi sé góð en á sama tíma virðist hún vera slæm. „Það er mikið róstur framundan á vinnumarkaði sem á sér einhverjar aðrar undirliggjandi aðstæður. Eignastaða við útlönd er jákvæð í fyrsta skipti í langan tíma. Við eigum meiri eignir í útlöndum heldur en skuldir. En á sama tíma sjáum við þegar við horfum inn í heimili landsins þá virðist vera að það sé hluti þar sem standi utangarðs.“
Halldór segist hafa haldið því fram allt frá þvi að yfirstandandi deila hófst, og í raun mörgum mánuðum áður, að lausnin á deilunni myndi liggja í gegnum rót hans, fasteignamarkaðinn. „Við sjáum það í hendi okkar það sem á sér stað inni í Karphúsi og á samningafundum Samtaka atvinnulífsins við öll þessi verkalýðsfélög er fyrst og fremst karp um kaup og kjör. En við leysum ekki framboðsskort á fasteignamarkaði sem er sannarlega undirliggjandi rót vandans með því að hækka laun. Við leysum þann framboðsskort með því að byggja meira, með því að byggja hagkvæmar og auka framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði. Allar lausnir sem líta fram hjá þessari staðreynd eru dæmdar til að mistakast.“