Traust til Alþingis hefur hrunið niður að undanförnu og er nú um 18 prósent þjóðarinnar sem treystir því. Það er um 11 prósentustigum minna en þegar þjóðarpúls Gallup mældi það síðast.
Frá þessu greindi RÚV í kvöld.
Bankakerfið mælist með 20 prósent traust, og hefur undanfarin áratug verið í neðsta sætinu, en er nú í þriðja neðsta sæti. Minnst er traustið til borgarstjórnar Reykjavíkur og Alþingis. Borgarstjórn með 16 prósent og Alþingi 18, eins og fyrr segir.
Könnunin var gerð dagana 7. til 20 febrúar og var heildarúrtaksstærð 1.424 og var þátttökuhlutfallið 54,3 prósent, segir í frétt RÚV.
Flestir bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar, eða 89 prósent. Embætti forseta Íslands, sem Guðni Th. Jóhannesson gegnir, er í öðru sæti annað árið í röð, en rúmlega 83 prósent bera mikið traust til þess.