„Mér finnst við verða að horfa á þetta með þessum gleraugum: Að það að fara í bólgna kjarasamninga í kólnandi hagkerfi er mikið hættuspil. Ég tel að það sé óráð að gera það heldur eigi kjarasamningar að vera meira hagsveifludrifnir. Það er eðlilegt að verkalýðshreyfingin sæki fram af miklum þunga í miklum efnahagsvexti þegar hagkerfið er á uppleið. En mér finnst það ekki skynsamleg nálgun og ég á erfitt með að láta hana ganga upp í mínum hagfræðiheimi, að við göngum mjög hart fram á vinnumarkaði inn í þegar kólnandi hagkerfi.“
Þetta er meðal þess sem Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Þar ræddi hann meðal annars stöðu mála í kjaraviðræðum, yfirvofandi verkföll, launahækkanir ríkisforstjóra og útspil ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir lausn í viðræðum vinnumarkaðarins. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Halldór sagði að hátt atvinnustig sé eitthvað sem Íslendingar leggi mjög mikið vægi á. „Við getum sagt að atvinnuleysi sé eitur í beinum þjóðarinnar, ekki bara núna eða undanfarin ár heldur undanfarna áratugi. Við höfum alltaf lagt mestu eða ríkustu áhersluna á það að halda hér uppi atvinnustigi á undanförnum áratugum og við verðum að passa að missa ekki stjórn á því.“