„Við komum nú að kjarna máls sem er sá að hagvöxtur síðustu ára hefur verið borinn uppi af láglaunaatvinnugrein en hagvöxturinn hefur gert ýmsum öðrum greinum kleift að greiða mun hærri laun.“
Þetta segir Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, í ítarlegri grein í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í dag.
Í greininni heldur Gylfi áfram að fjalla um stöðu mála á vinnumarkaði, og greina orsakir þeirra miklu deilna sem eru hjá aðilum vinnumarkaðarins, atvinnurekendum og stéttarfélögum.
Gylfi segir að hagvöxtur undanfarinna ára hafi ekki síst byggst á miklum vexti ferðaþjónustunnar, sem sé í láglaunaatvinnugrein. Laun í greininni taki mið af samkeppni ferðaþjónustu við önnur lönd, og því séu launin lág í samanburði við aðrar atvinnugreinar hér á landi.
„En hvernig stendur á því að verkalýðsfélög ætli að beina spjótum sínum að þeirri grein sem hefur búið til hagvöxt síðustu ára og hjálpað til að búa til bestu lífskjör sem þjóðinni hefur búið við? Svarið hlýtur að liggja í lágum launum í greininni í samanburði við aðrar innlendar greinar og skiptir þá launahlutfallið í myndinni hér að ofan litlu. Í ferðaþjónustu starfa þúsundir aðflutts vinnufólks á launum sem eru lág í samanburði við önnur laun innan lands.
Við komum nú að kjarna máls sem er sá að hagvöxtur síðustu ára hefur verið borinn uppi af láglaunaatvinnugrein en hagvöxturinn hefur gert ýmsum öðrum greinum kleift að greiða mun hærri laun. Gengi krónunnar hefur verið sterkt, vegna m.a. vaxtar ferðaþjónustu, sem lækkar verð á innflutttum aðföngum í öðrum atvinnugreinum í krónum sem þá geta greitt hærri laun; eftirspurn eykst eftir starfsfólki í öðrum greinum t.d. í byggingariðnaði, sem hækkar laun iðnaðarmanna, og í mörgum þjónustugreinum. Síðan er hægt að benda á það hvernig ákveðnir hópar – t.d. forstjórar og embættismenn – hafa fengið launahækkanir á meðan starfsfólk á lágum launum í ferðaþjónustu hefur fengið mun færri viðbótarkrónur í launahækkunum. En sá munur er á þessum hópum og starfsfólki í ferðaþjónustu að ferðaþjónusta er í beinni samkeppni við ferðaþjónustu í öðrum löndum þar sem laun eru yfirleitt töluvert lægri.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.