Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að ákvarðanir um að hækka laun nokkra forstjóra ríkisfyrirtækja um tugi prósenta hafi sent röng skilaboð inn í þær viðræður sem Samtök atvinnulífsins eiga við verkalýðsforystuna um þessar mundir. „Þetta hefur valdið mjög miklum skaða. Það er mjög erfitt fyrir okkur að kljást við þetta. Þetta eru siðferðisleg álitaefni, þetta eru kannski hlutir sem skipta kannski ekki öllu máli í þessu þjóðhagslega samhengi en hafa ofboðslega slæm áhrif á mórallinn í þessum viðræðum og þar af leiðandi eitthvað sem ég hef talað mjög hart gegn.“
Þetta er meðal þess sem Halldór sagði í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Þar ræddi hann meðal annars stöðu mála í kjaraviðræðum, yfirvofandi verkföll og útspil ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir lausn í viðræðum vinnumarkaðarins. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Halldór ræddi líka um það hvernig kjarabaráttan færi nú fram, en mikil átök geisa á mörgum örðum vígvöllum en einungis við samningaborðið í Karphúsinu. Það er til að mynda hart tekist á á samfélagsmiðlum. „Ég held að mín mesta gæfa í lífinu sé sú að hafa aldrei verið á Facebook. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun,“ sagði Halldór.