Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi milli mánaða og mælist nú með 25 prósent fylgi samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem hefur verið birtur. Það er örlítið minna fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum haustið 2017 þegar 25,3 prósent atkvæða féllu honum í skaut. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr stærsti flokkur landsins. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Hinir tveir stjórnarflokkarnir bæta einnig við sig fylgi. Vinstri græn mælast nú með 12,3 prósent fylgi sem er einu prósentustigi meira en í síðasta mánuði. Flokkurinn er þó enn nokkuð langt frá kjörfylgi sínu, sem var 16,3 prósent. Framsóknarflokkurinn myndi fá níu prósent atkvæða ef kosið yrði nú sem er nánast sama fylgi og fyrir mánuði, þegar fylgið mældist 8,8 prósent. Enn vantar nokkuð upp á að flokkurinn náði kjörfylgi sínu sem var 10,7 prósent.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír myndu ekki geta myndað meirihlutaríkisstjórn með því fylgi sem þeir mælast nú með, sem er 46,6 prósent. Þá dalar stuðningur við ríkisstjórnina milli mánaða og mælist nú 48,5 prósent, en var 49,1 prósent í síðustu mælingu Gallup.
Sósíalistar inni, Flokkur fólksins úti
Þau tíðindi eru í könnuninni að Sósíalistaflokkur Íslands mælist með fimm prósenta fylgi og næði manni inn á þing ef kosið yrði í dag. Það er önnur könnunin í röð sem hann mælist með fylgi sem dygði til að ná þeim árangri.
Samfylkingin tapar fylgi á milli kannana, mælist nú með 16,8 prósent fylgi en var síðast með 19,1 prósent. Flokkurinn er þó enn töluvert yfir niðurstöðu sinni í síðustu kosningum þegar 12,1 prósent þeirra sem kusu settu x við S. Samfylkingin er því næst stærsti flokkur landsins samkvæmt könnuninni líkt og hann mælst þorra kjörtímabilsins.
Viðreisn bætir lítillega við sig frá síðasta mánuði og mælist nú með 9,9 prósent fylgi. Píratar dala hins vegar eilítið og njóta nú stuðnings 11,6 prósent kjósenda samkvæmt könnun Gallup. Blokkin mælist samanlagt með 38,3 prósenta fylgi.
Miðflokkurinn sýnir lítil merki þess að rétta aftur úr kútnum eftir Klausturmálið og mælist með 6,7 prósent stuðning. Hann var á miklu flugi áður en að það mál kom upp og mældist til að mynda með 12 prósent fylgi í nóvember í fyrra.
Flokkur fólksins heldur áfram að dala og nýtur nú stuðnings 3,4 prósent kjósenda. Það er lægsta fylgi sem hann hefur mælst með í könnunum Gallup það sem af er þessu kjörtímabili.