Hið opinbera þarf að liðka fyrir gangi viðræðna um kjarasamninga og ganga á undan með góðu fordæmi. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, á milliþingi flokksins í dag en Rúv greinir frá.
Hún sagði að stéttir sem fengið hafi mestar launahækkanir þurfi að sýna þroska og vilja til að ná þjóðarsátt um jafnari tekjudreifingu en nú er. Gefa þyrfti út loforð um að laun tekjuhæstu ríkisstarfsmanna verði fryst í einhvern tíma.
Þorgerður Katrín gagnrýndi stjórnvöld fyrir aðkomu sína að kjarasamningum. Stjórnin hefði lofað miklu í upphafi um aðkomu sína, meira en hún gæti staðið við. Með því hefði stjórnin kolfallið á prófinu í væntingastjórnun. Þorgerður Katrín sagðist velta fyrir sér hvað ríkisstjórnin hefði verið að gera á öllum fundunum sem hún hefði átt með verkalýðshreyfingunni. „Voru þau að skiptast á uppskriftum eða pæla í plottinu í Ófærð?“ spurði hún.
„Hér þarf hið opinbera liðka fyrir og ganga á undan með góðu fordæmi. Þær stéttir sem mestar launahækkanir hafa fengið þurfa að sýna þroska og vilja til að ná þjóðarsátt um að tekjudreifingin verði jafnari en hún nú er. Og lofa því að laun þeirra ríkisstarfsmanna sem hæstar hafa tekjur verði í það minnsta fryst í einhvern tíma,“ sagði formaðurinn.
Jafnframt sagði Þorgerður Katrín að fella ætti þjónustu sálfræðinga undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga til að tryggja aðgengi almennings óháð efnahag. Hún fjallaði einnig um málefni innflytjenda og hælisleitenda og sagði að kerfið sem að þeim sneri mætti vera manneskjulegra. Hún varaði við því að íslenskir systurflokkar danska Þjóðarflokksins fengju hér dagskrárvald í þessum málum.