Hringinn í kringum landið eru ellefu fiskimjölsverksmiðjur og níu hrognavinnslur með alls um þúsund starfsmenn sem bíða eftir loðnu. Þetta segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, í samtali við Austurfrétt. „Hjá okkur eru þetta um 150 starfsmenn með sjómönnum,“ segir hann.
Loðna hefur ekki enn fundist þrátt fyrir mikla leit. Í frétt Austurfréttar um málið segir að reyna eigi til þrautar um helgina þegar Polar Amaroq, skip grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar, og Ásgrímur Halldórsson frá Höfn láta úr höfn. Fyrirhugað sé að Ásgrímur fari meðfram suðurlandinu en Polar norður fyrir.
„Við ætlum að skoða vesturgöngu og áfram upp með Norðurlandi. Við vitum að loðnan hefur oft komið í töluverðu magni upp að Norðurlandi seint. Hoffell náði til dæmis tveimur fullfermistúrum fyrir norðan í fyrra eftir 14. mars,“ segir Gunnþór.
Halda í vonina
Loðnuvertíðinni hefur lokið um miðjan mars en Gunnþór bendir að sé horft lengra aftur í tímann hafi þekkst að loðna væri veidd og hrogn úr henni unnin framundir lok mánaðarins.
„Ef ég á að vera heiðarlegur þá er ég orðinn vondaufur en við höldum í vonina. Þrátt fyrir allt er eftir miklu að slægjast því hrognatíðin er verðmætust. Við trúum að eitthvað af birtingamyndum fyrri tíðar verði uppi á teningnum,“ segir hann.
Áhrifin allnokkur á hagvöxt
Hafrannsóknarstofnun hefur ekki gefið út neinn upphafskvóta á loðnu á þessari vertíð og stefnir því í að engar loðnuveiðar verði heimilaðar, samkvæmt Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Verandi næst mikilvægasta útflutningsfisktegundin á eftir þorskinum munu áhrif þess verða allnokkur á landsframleiðslu og þar með á hagvöxt.
Útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam landsframleiðsla síðustu fjögurra ársfjórðunga 2.766 milljörðum króna og er því um að ræða um 0,6 prósent af landsframleiðslu sem þjóðarbúið verður af, að öllu öðru óbreyttu.
„Sú veiðiregla sem stuðst er við til ákvörðunar á umfangi veiða gerir ráð fyrir að veiða upp að því marki að skilin séu eftir um 400 þúsund tonn af kynþroska loðnu hverju sinni. Nýjasta mat á þeim stofni frá rannsóknarleiðangri sem farinn var 4.-15. janúar var að stofn kynþroska loðnu væri 214 þúsund tonn,“ segir í Hagsjánni.
Loðna veidd samfleytt frá 1963
Þær mælingar sem gerðar voru í byrjun febrúar gáfu ekki von um að veiðiráðgjöf verði breytt. Hluti af óvissunni um mat á stærð stofnsins liggur, samkvæmt Hagsjá, í því að ganga loðnunnar hefur breyst á síðustu árum sem talið er að rekja megi meðal annars til hlýnunar sjávar í kringum landið.
„Verði það niðurstaðan að ekki verði veidd nein loðna mun það sæta töluverðum tíðindum enda hefur loðna verið veidd hér við land samfleytt frá árinu 1963. Þó komið hafi vertíðir með mjög litlum veiðum hefur það aldrei farið svo að ekki hafi orðið nein veiði. Af slæmum vertíðum má helst nefna árið 2009 þegar veidd voru 15 þúsund tonn og árið 1982 þegar veiðar námu einungis rúmlega 13 þúsund tonnum. Þegar mest lét námu veiðar 1,3 milljón tonnum árið 1997 en segja má að mestu veiðarnar hafi verið á tímabilinu 1996-2002 þegar meðalveiðar ársins námu 976 þúsund tonnum. Frá árinu 2002 hafa veiðar leitað niður á við og verið að meðaltali 190 þúsund tonn síðustu 5 ár,“ segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.
Hefur áhrif á tekjur sjómanna
Gunnþór segir að loðnan sé um 40 prósent útflutningstekna hjá fyrirtækjum í uppsjávarfiski. Hún hafi verið 35 prósent af þeirra tekjum miðað við áætlun en þau hafi reyndar ekki verið með mikinn loðnukvóta inni í þeim.
„Ég geri ekki lítið úr áhrifum þess, ef ekki finnst loðna, á umfang fyrirtækjanna en þau draga saman í fjárfestingum og fara í gegnum þetta. Hjá sjómönnum get ég trúað að þetta sé 30 prósent tekjulækkun. Hlutfallslega þyngsta höggið er hins vegar fyrir starfsfólkið sem fer á milli staða og treystir á vertíðar. Loðnubrestur kemur víða niður, það má reikna með að Fjarðabyggð verði af 200 til 250 milljónum í tekjur,“ segir hann.
Skip Síldarvinnslunnar hafa verið að veiða kolmunna sem gengur vestur fyrir Bretlandseyjar til að hrygna og sem leitar svo aftur norður þegar líður að sumri. „Það hefur gengið upp og ofan. Siglingin er löng og veiðarnar kostnaðarsamar því svæðið er erfitt og tíðarfarið hefur verið það einnig,“ segir Gunnþór við Austurfrétt.