Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir um fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir að meginmarkmiðið sé auðvitað fyrst og fremst að reyna ná samningum. „Við vonumst til að þetta aðgerðaplan bíti það fast að við fáum samningsaðila að borðinu.“ Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun.
Stjórn VR samþykkti á fundi fyrr í vikunni að boða til leynilegrar atkvæðagreiðslu um verkfall hjá hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Verkfallsaðgerðirnar dreifast á 15 daga en verði þær samþykktar er fyrsta verkfall fyrirhugað 22. mars næstkomandi. Verði ekki gengið frá samningum er stefnt á ótímabundna vinnustöðvun 1. maí.
Ragnar Þór segist í samtali við Fréttablaðið gera ráð fyrir því að atkvæðagreiðsla um aðgerðirnar hefjist snemma í næstu viku en einungis þeir starfsmenn sem aðgerðirnar munu ná til geta greitt atkvæði. Það þýði að þátttakan þarf að lágmarki að vera 20 prósent til að atkvæðagreiðslan teljist gild.
Hann segist ekki vera kominn með endanlegar tölur yfir fjölda félagsmanna VR sem aðgerðirnar gætu náð til en líklegast sé um yfir þúsund manns að ræða.
„Ég á ekki von á því að það verði bitist eitthvað um framkvæmdina en það má alveg búast við því að Samtök atvinnulífsins láti reyna á öll álitamál sama hver þau eru. Það hefur alltaf verið eðli ferlisins að það sé látið reyna á nánast allt fyrir Félagsdómi,“ segir Ragnar Þór við Fréttablaðið
Það þurfi að passa upp á mörg praktísk mál í þessu ferli öllu. „Við erum fyrst og fremst að reyna að gera þetta rétt og við viljum vanda okkur. Við kvörtum allavega ekki yfir aðgerðaleysi þessa dagana.“ Ragnar segir að aðilar muni hittast hjá ríkissáttasemjara næstkomandi fimmtudag þótt fundur hafi ekki formlega verið boðaður. Í fréttinni kemur fram að samkvæmt lögum þurfi að halda fund innan við tveimur vikum frá því að viðræðum er slitið en sá frestur rennur út á fimmtudaginn.