Ákveðin hætta er á ferðum varðandi kjarasamninga og verkföll, samkvæmt Þorsteini Pálssyni, fyrrverandi ritstjóra og formanni Sjálfstæðisflokksins, en hann var í viðtali í Silfrinu á RÚV í morgun.
„Margir tala um nýja verkalýðsforystu en ég brosi nú svolítið út í annað því mér finnst þetta vera svolítið gamaldags. Eins og við séum að fara svolítið inn í gamlan tíma,“ segir hann og bætir því að ekki sé mikið um nýjar eða ferskar hugmyndir hjá verkalýðsforystunni.
Að hans mati má þó ekki skella allri skuldinni á verkalýðsforystuna. „Ég held að hún sé að bregðast svolítið við aðstæðum í samfélaginu og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að Samtök atvinnulífsins bera mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Það hefur líka orðið stefnubreyting á þeim vettvangi, ekki síður,“ segir hann.
SA hlaupið frá grundvallaratriðinu
Þorsteinn rifjar upp að fyrir fimm árum þá hafi það verið skilyrði hjá SA og ASÍ að fara í viðræður við ríkisstjórnina og grundvallaratriðið var að semja um mynt sem væri stöðug. SA hafi hlaupið frá þessu grundvallaratriði og skapi það nýjar aðstæður í samfélaginu. „Það er ekki hægt að taka þá ábyrgð frá þessum samtökum,“ segir hann.
„Ef við horfum til baka á þjóðarsáttina og rifjum upp út á hvað hún gekk árið 1990 þá voru engar vinsældaraðgerðir sem var verið að semja um milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar,“ segir hann. Það sem aðilar vinnumarkaðarins hafi lagt við var að afnema nýumsamdar launahækkanir háskólamenntaðra og ríkisstarfsmanna sem ríkisstjórnin hafði nýlega skrifað undir.
Hitt atriðið hafi verið að tryggja stöðugt gengi. „Það var lykilatriðið sem gengið var út frá í þjóðarsáttinni. Það var þetta sem aðilar vinnumarkaðarins fóru fram á við ríkisstjórnina og það reyndist svo unnt að verða við þessum óskum. Fyrir fimm til sex árum voru SA enn með sömu stefnu en nú hafa þau hlaupið frá henni,“ telur hann. Þetta sé að skapa hinn stóra og alvarlega vanda.
Þorsteinn segist þó ekki vera að draga úr ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar en hann telur að skýra verði þá stöðu sem upp er komin með þessari grundvallarstefnubreytingu hjá Samtökum atvinnulífsins.
Stjórnvöld vilja ekki takast á við óréttlætið
Þorsteinn segir að þrátt fyrir að há laun ýmissa forstjóra og hækkanir kjararáðs hafi haft áhrif á viðræðurnar þá sé tiltölulega mikill launajöfnuður hér á landi en að það orðið hafi meiri misskipting er varðar eignir í þessu samfélagi en víða annars staðar. Þorsteinn spyr sig hvers vegna það sé að gerast. „Menn loka augunum fyrir því. Við búum við meiri ójöfnuð á fjármálamarkaði en í nokkru öðru lýðræðisríki. Stór hluti atvinnulífsins er utan við krónuhagkerfið og síðan er það launafólkið sem á að starfa í því kerfi.“ Hann telur þetta búa til misrétti sem fólk eðlilega sættir sig ekki við.
„Þetta er óréttlæti sem grefur um sig og stjórnvöld vilja ekki taka á af því að það eru ákveðin hagsmunaöfl sem toga í flokkana, bæði frá hægri og vinstri til að viðhalda þessu ójafnrétti,“ segir hann og bætir því við að vandamálið sé í grunngerð efnahagsstefnunnar og nú hafi menn myndað ríkisstjórn til að verja þetta misrétti og koma í veg fyrir að það sé leiðrétt. „Og þegar fólk fær á tilfinninguna að það sé ekki einu sinni vilji til að ræða þetta þá hlýtur að fara svona.“