Tólf þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem mælst er til að heildarendurskoðun lögræðislaga fari fram og að kosin verði til þess sérnefnd þingmanna. Í nefndina kjósi Alþingi þingmenn úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi. Haft verði samráð við samtök fatlaðs fólks við vinnu að endurskoðuninni. Auk almennrar heildarendurskoðunar verði sérstaklega litið til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, leggur fram tillöguna en með henni er einn varaþingmaður Pírata sem og þingmenn úr Viðreisn, Samfylkingunni, Flokki fólksins og Pírötum.
Í þingsályktunartillögunni kemur fram að nefndin skuli leggja áherslu á að flýta eins og kostur er breytingum sem ætlað er að afnema ólögmæta mismunun gegn fötluðum og leggja fram frumvarp þar að lútandi svo fljótt sem auðið er. Forseti Alþingis skuli tryggja nefndinni nauðsynlega aðstöðu og sérfræðiaðstoð til að sinna endurskoðuninni.
Einungis fyrsta skrefið
Þórhildur Sunna segir í samtali við Kjarnann að tillagan sé einungis fyrsta skrefið. „Tillagan gengur út á það að Alþingi samþykki að heildarendurskoðun fari af stað og að hún eigi sér ekki stað inni í dómsmálaráðuneytinu heldur á vettvangi þingsins. Og að farið verði með hana á svipaðan hátt og endurskoðun útlendingalaganna á sínum tíma,“ segir hún og bendir á að fordæmi séu einmitt fyrir því í svona málum.
„Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta mikilvægt er að dómsmálaráðuneytið hefur nú þegar staðið að einhverju sem þau töldu vera heildarendurskoðun. Þeirri vinnu lauk 2015 og þau lög tóku gildi 2016,“ segir hún.
Endurskoðun laganna uppfyllti ekki tilmæli Evrópunefndar
Þórhildur Sunnar segir að hún brenni fyrir þessu málefni vegna þess að þegar hún starfaði fyrir Geðhjálp þá vann hún við úttekt á því hvernig þessum lögum hefði mistekist að uppfylla skilyrði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, grunnskilyrði Mannréttindasáttmála Evrópu og dómafordæmis Mannréttindadómstóls Evrópu né heldur hefði endurskoðun dugað til þess að uppfylla tilmæli Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu.
„Ég vænti þess að þessar staðhæfingar mínar verði staðfestar af þessari nefnd þegar hún kemur hingað til lands á þessu ári en nú er fyrirhuguð heimsókn til Íslands. Síðast kom nefndin árið 2012 og gaf út skýrslu árið eftir. Þar voru endurtekin mörg af tilmælum nefndarinnar sem hún hefur komið með frá árinu 1994 – frá fyrstu heimsókn – og svörin frá Íslandi þá bentu til þess að ekki stæði til að breyta þessu með neinum hætti – og það kom líka á daginn. Allavega gagnvart þessum ákvæðum sem mér finnst vera hvað alvarlegust,“ segir Þórhildur Sunna en hún telur að heildarendurskoðunin sem fram fór hafi ekki komist með tærnar þar sem hún þurfti að hafa hælana.
Þakklát fólki sem vinnur í geðheilbrigðiskerfinu
Vert er að rýna í hvað svokallað lögformlegt hæfi þýðir í þessu samhengi en það samanstendur af rétthæfi og gerhæfi. Rétthæfi er eitthvað sem fólk öðlast við fæðingu og heldur til dauðadags, það er rétturinn til þess að hafa réttindi – til að mynda réttur til lífs eða eignarréttur. „Við öðlumst þessi réttindi við fæðingu og ættum öll að heita jöfn fyrir lögum,“ útskýrir Þórhildur Sunna. Gerhæfi er rétturinn til þess að nýta sér réttindi sín – til dæmis að skrifa undir kaupsamning eða leigusamning eða skrifa greinar í blöðin. „Þá ertu að nýta tjáningarfrelsið þitt, og svo framvegis. Lögræðislögin innihalda margvísleg inngrip inn í gerhæfi fólks. Og þau mismuna fötluðu fólki og fólki með alvarlega geðsjúkdóma. Því er mismunað svakalega í þessum lögum,“ bendir hún á.
Þórhildur Sunna segir að sér finnist mikilvægt að fram komi að með gagnrýni sinni á lögræðislögin – það er að segja lagarammann sem gildir í kringum þessi úrræði – þá sé hún ekki að setja út á störf geðheilbrigðisstarfsmanna að neinu leyti. „Ég er ekki að halda því fram að þau séu sýknt og heilagt í einhvers konar samsæri með valdamönnum um að koma saklausu fólki inn á stofnanir. Ég er alls ekki að segja það. Lagakerfið er aftur á móti ekki nægilega sterkt til að vernda misnotkun á þessu kerfi. Það hljóta allir að vera sammála um að vilja bæta það,“ segir hún. Fólk í geðheilbrigðiskerfinu vinni mjög óeigingjarnt og mikilvægt starf og fái oft allt of lítið þakklæti fyrir það. Hún segist vera mjög þakklát því fólki fyrir það starf sem það vinnur.
Bein lagaleg mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma
Eins og áður segir felur tillagan í sér að Alþingi skipi nefnd átta þingmanna úr öllum flokkum, það er einn þingmann úr hverjum flokki, til þess að ráðast í heildarendurskoðun á lögræðislögum. Þessi nefnd á líka að setja það í forgang að afnema öll ákvæði lögræðislaga sem mismuna fötluðu fólki með beinum hætti í lögum. Í ræðu Þórhildar Sunnu í pontu á Alþingi, þar sem hún kynnti frumvarpið þann 7. febrúar síðastliðinn, segir hún að þar eigi hún við ákvæði í lögræðislögum, sem setur það sem skilyrði frelsissviptingar að viðkomandi aðili þjáist af geðsjúkdómi, að líkur séu á að svo sé, að ástandi hans sé þannig háttað að því megi jafna við alvarlegan geðsjúkdóm eða að hann þjáist af vanda gagnvart áfengis- eða fíkniefnamisnotkun.
„Að alvarlegur geðsjúkdómur einn og sér, eða grunur þar um, teljist nægjanlegt skilyrði til jafn alvarlegs inngrips í frelsi og réttindi einstaklinga og nauðungarvistun sannarlega er er bein lagaleg mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma eða ætlaða geðsjúkdóma. Þetta er eitthvað sem Evrópunefnd um varnir gegn pyntingum og annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu hefur bent á frá sinni fyrstu heimsókn til Íslands árið 1994 án þess að teljandi viðbrögð hafi verið að sjá eða finna hjá stjórnvöldum á Íslandi, sem er að sjálfsögðu miður,“ segir hún.
Vit haft fyrir fólki
Þórhildur Sunna segir að í tillögunni sé lagt til að þessu fyrirkomulagi verði breytt og að snúið verði af þeirri braut sem henni finnst lögræðislögin vera á en henni finnst þau vanvirða og mismuna fólki á grundvelli þess að það er ekki talið vita hvað því sé fyrir bestu. „Þetta er viðvarandi viðhorf margra gagnvart fólki með geðsjúkdóma, gagnvart fólki með geðfötlun, að það hafi ekki vit á því sem því er fyrir bestu og geti ekki vitað hvers konar lyfjameðferð það eigi að fá og eigi ekki endilega fá að ganga laust ef læknir telur það ekki vera því fyrir bestu.“
Þrátt fyrir breytingar á þessum lögum telur hún mikilvægt að einhvers konar neyðarúrræði séu í lögunum eins og hægt er að sjá í mörgum nágrannalöndunum og í flestum lýðræðisríkjum. „Þau hafa vissulega neyðarúrræði til nauðungarvistunar í sínum lögum en þar er skýrt afmarkað og þar er mjög skýrt að um neyðarúrræði er að ræða sem einungis er gripið til ef lífi viðkomandi eða heilsu stafar veruleg ógn af, nú eða annarra. Þessu er ekki fyrir að fara í lögum okkar um nauðungarvistun. Þar eru engin skilyrði sett um að lífi viðkomandi aðila eða heilsu stafi ógn af því verði hann ekki nauðungarvistaður. Þar er heldur ekki að finna skilyrði fyrir því að a.m.k. tveir sérfræðingar í geðheilbrigði verði að komast að sömu niðurstöðu um nauðsyn nauðungarvistunar, sérstaklega þegar kemur að áframhaldandi nauðungarvistun,“ segir hún.
Verið að vanvirða rétt fólks til að taka sjálfstæðar ákvarðanir
Í lok ræðunnar segist hún telja að ef Íslendingar tryggi ekki að það sé einungis ýtrasta neyðarúrræði að beita fólk þvingunum, að neyða það til að gera hluti sem það vill ekki gera, að læsa það inni, loka það af án þess að haft sé fyrir því réttmætar og lögmætar ástæður, þá geti hún ekki talið það réttlætanlegt.
„Mér finnst það vera mismunun. Mér finnst það vera forræðishyggja. Mér finnst það vanvirða rétt stórs hóps fólks í samfélaginu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í lífi sínu og ráða sínum högum og stjórna sinni heilbrigðisþjónustu sjálft. Ég lít á það sem sjálfsagðan hlut að ég geti sagt nei við þeim lyfjum sem læknir leggur til að ég taki við einum sjúkdómi eða öðrum, að ég geti valið hvar ég kýs að búa og verði ekki fangelsuð nema ég brjóti af mér á þann hátt að það teljist nauðsynlegt til verndar almannahagsmunum,“ segir hún.