Hlutfall þeirra sem eru STEM-menntaðir (Science, Technology, Engineering, Mathematics), það er á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði, á Íslandi er óvenjulega lágt í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir og mikilvægt er að fjölga þeim verulega til að undirbúa Ísland betur undir komandi samfélagsbreytingar vegna tæknibreytinga.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshóps stjórnvalda um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna. Hlutfall er 16 prósent á Íslandi en 21 til 30 prósent hjá hinum Norðurlöndunum.
Í skýrslunni er meðal annars fjallað um hvernig mannauðurinn íslenski er undirbúinn fyrir breytingar sem fylgja aukinni sjálfvirkni og innleiðingu á gervigreind. Á íslenskum vinnumarkaði eru um 200 þúsund einstaklingar, en mikill vöxtur undanfarinna ára í hagkerfinu ekki síst verið borinn uppi af uppgangi í láglaunastarfsemi, í samanburði við margar aðrar sérfræðigreinar, eins og ferðaþjónustu og byggingariðnaði.
„Segja má að menntakerfið sé að vissu leyti límið sem bindur þetta allt saman. Þar er að mörgu að huga þegar horft er fram á á veginn. Í dag eru STEM-menntaðir (Science, Technology, Engineering, Mathematics) sem hlutfall af háskólamenntuðum hér á landi aðeins 16%, sem er mjög lágt hlutfall í samanburði við önnur Evrópuríki. Mikilvægt er því að auka fjölda þeirra sem eru með menntun á sviði raungreina svo Ísland verði betur í stakk búið til að mæta þeim tæknibreytingum sem spáð er að verði á næstu 15–20 árum,“ segir í skýrslunni.
Mikil þörf á því að skoða menntakerfið sérstaklega og hvernig það getur hjálpað til við að takast á við breytingarnar sem framundan eru.
„Þá þarf að líta til fleiri þátta þegar kemur að menntun eins og t.d. hvernig er kennt, uppbyggingar þverfaglegs náms, aukins vægis verklegra faga og listgreina, sem og bættrar líðanar barna og ungs fólks í námi. Í þessu samhengi er rétt að benda á að World Economic Forum spurði þúsundir forstjóra árið 2015 hvaða færni þeir teldu að starfsfólk þyrfti að búa yfir árið 2020. Niðurstöðurnar voru um margt forvitnilegar. Hástökkvari könnunarinnar var sköpun (e. creativity), samanborið við sambærilega könnun sem gerð var 5 árum áður, og tilfinningagreind kom ný inn á þennan lista. 23 Vægi gagnrýninnar hugsunar eykst enda sú hæfni sífellt mikilvægari í heimi þar sem magn upplýsinga og áreiti eykst með samfélagsmiðlum og öðrum upplýsingaveitum. Færni fólks til að að leysa flókin verkefni trónir á toppnum og er dæmi um færni sem mun skipta miklu máli í fjórðu iðnbyltingunni,“ segir í skýrslunni.
Í starfshópnum sem tók skýrsluna saman voru Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður, Lilja Dögg Jónsdóttir, Guðmundur Jónsson, Ragnheiður H. Magnúsdóttir og Kristinn R. Þórisson.