Viðskiptaafgangur nam 300 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi en Seðlabanki Íslands birti greiðslujafnaðartölur í morgun. Samkvæmt greiningardeild Arion banka eru tölurnar við fyrstu sýn mun sterkari en á horfðist.
Í markaðspunktum greiningardeildarinnar kemur fram að fyrirfram hafi þau búist við viðskiptahalla, bæði vegna þess að vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 3,5 milljarða króna á fjórðungnum og hafi það legið nokkurn veginn fyrir að rekstrarframlög yrðu neikvæð. „Frumþáttatekjurnar reyndust hinsvegar björgunarvesti viðskiptaafgangsins og héldu honum á floti. Þær gefa aftur á móti skakka mynd af stöðunni, þar sem afgangur af þeim virðist tilkominn vegna tapreksturs innlendra félaga, ekki vegna aukins þróttar í utanríkisverslun eða aukinnar tekjusköpunar erlendra eigna í eigu Íslendinga.“
Þetta er mun minni afgangur en á sama tíma árið 2017, sem þá var 7,5 milljarðar króna á föstu gengi, og jafnframt slakasti fjórði ársfjórðungur frá árinu 2012. „Þrátt fyrir það er niðurstaðan mun betri en við þorðum að vona, en spá okkar frá því í október hljóðaði upp á 4,6 milljarða króna viðskiptahalla. Frávikið frá spánni má fyrst og fremst rekja til frumþáttatekna, sem voru jákvæðar um hvorki meira né minna en 10,1 milljarðar króna. Séu frumþáttatekjur teknar út fyrir sviga mælist 9,8 milljarða króna viðskiptahalli, samanborið við 9,3 milljarða króna afgang á sama tíma árið 2017,“ segir í markaðspunktunum.
Samkæmt greiningardeildinni eru tvær neikvæðar breytingar á milli ára og tvær jákvæðar. „Ef við byrjum á neikvæðu hliðinni þá voru rekstrarframlög neikvæðari en þau voru fyrir ári síðan. Það sem skýrir þessa breytingu eru auknar peningasendingar á milli landa, en alls námu peningasendingar til erlendra einstaklinga 7,4 ma.kr. á fjórðungnum, og hafa aldrei mælst meiri. Peningasendingar til einstaklinga hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu eftir því sem erlendu vinnuafli fjölgar. Það sem vegur hinsvegar þyngst er minni þjónustuafgangur en fyrir ári síðan. Líkt og við höfum áður fjallað um má rekja þennan mun fyrst og fremst til útflutnings á hugverkum fyrirtækja í lyfjaiðnaði.
Af jákvæðu breytingunum er athyglisverðast að sjá hversu mikið frumþáttatekjur eru að aukast á milli ára, en til þeirra teljast aðallega laun og fjárfestingatekjur. Ástæðan fyrir auknum afgangi af frumþáttatekjum er hinsvegar ekki sú að erlendar eignir Íslendinga hafi orðið arðbærari, eða að Íslendingar eru að fá hærri launagreiðslur frá erlendum aðilum, heldur virðist sem innlend fyrirtæki séu að skila erlendum eigendum sínum tapi. Fyrir ári síðan var það sama upp á teningnum, það er að segja innlend fyrirtæki í eigu erlendra aðila voru rekin með tapi. Þá hinsvegar greiddu innlend fyrirtæki erlendum eigendum sínum arð, svo jöfnuður frumþáttatekna var neikvæður (innlendir aðilar greiddu erlendum aðilum meira en þeir fengu greitt frá erlendum aðilum).“
Jafnframt segir að á fjórða ársfjórðungi 2018 hafi enginn arður hinsvegar verið greiddur, og fyrirtækin rekin með tapi, svo gjaldahliðin, þ.e.a.s. það sem innlendir aðilar greiða erlendum hafi verið mun lægri en fyrir ári síðan, á meðan tekjuhliðin hafi verið nánast óbreytt. Þetta útskýri viðskiptaafganginn á ársfjórðungnum að mestu leyti.