Seðlabanki Íslands greip inn í viðskipti á gjaldeyrismarkaði í dag með það að markmiði að vega á móti veikingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum. Krónan veiktist um 0,29 prósent gagnvart evru og 0,5 prósent gagnvart Bandaríkjadal, eftir inngrip Seðlabankans.
Seðlabankinn staðfesti að inngrip hefði átt sér stað, eftir fyrirspurn Kjarnans.
Umfangið liggur ekki fyrir, en Seðlabankinn upplýsir um það með tilkynningu á vef sínum tveimur dögum eftir viðskiptin. Inngripið í þetta skipti nam 2,5 milljörðum, segir á vef bankans.
Seðlabanki Íslands hefur ítrekað gripið inn í viðskipti á gjaldeyrismarkaði að undanförnu, eins og fjallað hefur verið um með ítarlegum hætti á vef Kjarnans, en inngripin miða að því að koma á meiri stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og vinna gegn óvenjulega miklum sveiflum á gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum, Bandaríkjadal og evru, hefur veikst nokkuð undanfarna mánuði, ekki síst vegna þess titrings á markaði sem fjárhagsvandi WOW air hefur skapað.
Evran kostar nú 137 krónur og Bandaríkjadalur 121 krónu. Veiking krónu gagnvart Bandaríkjadal nemur um tæplega 20 prósentum á undanförnu ári en gagnvart evru er hún 9,85 prósent.
Uppfært: Seðlabankinn hefur nú upplýst um umfang inngrips á gjaldeyrismarkaði. Það nam 2,5 milljörðum króna.