Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður Marels, segir að hlutfallsleg stærð fyrirtækisins á íslenska hlutabréfamarkaðnum sé „umhugsunarefni“, en eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, þá hefur verið ákveðið að stefna að skráningu hlutabréfa félagsins á Euronext markaðnum í Amsterdam. Að lokum stóð valið milli kauphalla Amsterdam og Kaupmannahöfn.
Markaðsvirði Marels hefur hækkað mikið á undanförnu ári og er það nú 335 milljarðar króna, eftir um 35 prósent hækkun frá áramótum. Starfsmenn eru um sex þúsund á heimsvísu.
Aðalfundur félagsins fór fram í dag í höfuðstöðvum félagsins í Garðabæ.
„Eftir ítarlega greiningu á mögulegum skráningarkostum fyrir félagið hefur stjórn Marel ákveðið að stefna að skráningu hlutabréfa Marel á Euronext í Amsterdam samhliða skráningu á Íslandi. Markmiðið með tvíhliða skráningu er að auka seljanleika hlutabréfanna og styðja við frekari vöxt og virðisaukningu fyrir alla hluthafa félagsins,“ segir Ásthildur í tilkyninngu.
Eins og tilkynnt var á aðalfundi í mars 2018, voru óháðir alþjóðlegir ráðgjafar, STJ Advisors, fengnir til að greina mögulega skráningarkosti fyrir félagið til að styðja við stefnu þess og áform um virðissköpun fyrir hluthafa. „Skráning hlutabréfa Marel í Kauphöllinni 1992 var gæfuspor til frekari framþróunar og vaxtar félagsins, en ljóst er að hlutfallsleg stærð Marel á íslenskum verðbréfamarkaði er umhugsunarefni. Í því ferli að velja kauphöll hefur Marel lagt áherslu á hagsmuni núverandi og verðandi hluthafa Marel og að viðskipta- og uppgjörsferli sé hnökralaust á milli íslenska markaðarins og þeirra tveggja kauphalla sem valið stóð á milli. Litið var til fjölda viðmiða við val á kauphöll, þar á meðal viðmiða sem lúta að rekstri Marel sérstaklega, svo sem umfangs starfsemi í viðkomandi landi, uppgjörs- og viðskiptagjaldmiðils, auk þátttöku alþjóðlegra fjárfesta á viðkomandi markaði. Það er mat stjórnar og stjórnenda Marel að Euronext kauphöllin í Amsterdam hafi komið sterkast út í þeim samanburði og mun Marel halda áram að vinna náið með Euronext í Amsterdam eftir því sem félagið færist nær skráningu,“ segir Ásthildur.
Hún segir stjórn og stjórnendur vera stolt af árangri félagsins á árinu 2018. „Við erum afar stolt af árangri félagsins á árinu 2018. Skilvirkni í rekstri og öguð fjárfesting í innviðum eru forsenda þess að geta þjónustað viðskiptavini og aðra hagaðila með skilvirkum hætti og skilað verðmætum til hluthafa. Á árinu 2018 voru greiddar um 29 milljón evrur (3,6 milljarðar kr.) í arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2017. Í samræmi við markmið félagsins um fjárhagsskipan og arðgreiðslustefnu hefur stjórn Marel lagt til við aðalfund 2019 að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2018 sem nemur 5,57 evru sentum á hlut. Miðað við áætlaða útistandandi hluti á aðalfundardegi nemur arðurinn um 37 milljón evrum (5,0 milljarðar króna) eða um 30% af hagnaði rekstrarársins 2018, samanborið við arðgreiðslu upp á um 29 milljónir evra á síðasta ári,“ segir Ásthildur í tilkynningu.
Í stjórn Marels voru endurkjörin, auk Ásthildar, Dr. Ólafur Steinn Guðmundsson, Ástvaldur Jóhannsson, Margrét Jónsdóttir, Arnar Þór Másson, og Ann Elizabeth Savage.
Helgi Magnússon gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Hann hefur setið í stjórn Marel í 14 ár og var honum þakkað fyrir vel unnin störf í þágu Marel.
Ton van der Laan kemur nýr inn í stjórn Marel. Ton er fæddur árið 1953 og er búsettur í Hollandi. Hann situr í stjórn Vion Foods, Royal de Heus, Dümmen Orange og Rainforest Alliance. Áður var hann forstjóri Nidera Capital í Hollandi og Argentínu, framkvæmdastjóri fyrir dýraafurðir hjá Cargill í Bandaríkjunum og forstjóri Provimi í Hollandi. Fyrir það var hann í ýmsum stjórnunarstöðum hjá Unilever í um 22 ár.