Marel verður skráð á markað í Euronext kauphöllina í Amsterdam í Hollandi innan níu mánaða, en valið stóð að lokum milli kauphallanna í Amsterdam og Kaupmannahöfn. Félagið verður tvískráð, bæði á Íslandi og í Hollandi.
Um þetta var upplýst á aðalfundi Marel sem nú stendur yfir í höfuðstöðvum félagsins í Austurhruni í Garðabæ.
Marel er langsamlega verðmætasta félagið í kauphöll Íslands en félagið hækkaði um 1,3 prósent á markaði í dag, í 2,2 milljarða króna viðskiptum, og hefur hækkað um 35 prósent frá áramótum.
Markaðsvirði félagsins nemur nú tæplega 334 milljörðum króna, en samanlagt markaðsvirði skráðu félaganna á aðallista kauphallar Íslands nemur um þúsund milljörðum króna.
Stærsti eigandi Marel er Eyrir Invest sem á 27,8 prósent hlut í félaginu. Stærstu eigendur félagsins eru stofnendur félagsins, feðgarnir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og Þórður Magnússon, með um 35 prósent hlut. Þórður á 19 prósent hlut en Árni Oddur 16 prósent.
Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti hluthafi félagsins með 9,74 prósent hlut, Gildi lífeyrissjóður á 6,6 prósent hlut, LSR (A og B deild) á 6,6 prósent hlut og Birta lífeyrissjóður 3,93 prósent. Stapi, Festa, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Brú, Almenni lífeyrissjóðurinn, Lífsverk og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda eru einnig allir á meðal 20 stærstu hluthafa.
Samanlagt eiga þessir sjóðir 37,4 prósent hlut í Marel og nemur virði þess hlutar 125,9 milljörðum króna miðað við markaðsvirðið í dag.
Evrópska fjárfestingasjóðafyrirtækið Teleios Global Opportunities hefur að undanförnu keypt hlutafé í Marel og er 9. stærsti hluthafinn með 1,94 prósent hlut.